Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:18:53 (4735)

2002-02-14 17:18:53# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég sagði áðan um að í vor þyrfti að liggja fyrir nógu sterk vísbending um að farið yrði í framkvæmdir til að fyrirtækið Landsvirkjun treysti sér til að hefja undirbúningsframkvæmdir byggist að sjálfsögðu á því að virkjunarframkvæmdir þurfa að hefjast áður en álversframkvæmdir hefjast. Með því að geta notað sumarið í sumar ætti þetta allt saman að geta gengið upp og á árinu 2006 væri hægt að hefja framleiðslu. Það er því mjög mikilvægt að árið í ár nýtist.

Varðandi erlent vinnuafl er reiknað með að það geti þurft að verða um fimmtungur samkvæmt því sem kemur fram í útreikningum, og er getið um þetta í greinargerð. Hversu stóran hlut Norsk Hydro kemur til með að eiga í Reyðaráli er óljóst á þessari stundu og í sjálfu sér er það ekki mál sem er stýrt úr iðnrn. heldur varðar það þá aðila sem standa að Reyðaráli. Þeir hafa ekki gert endanlegt samkomulag um eignaraðild að fyrirtækinu eða uppskiptingu eignar í sambandi við verkefnið.

Að það liggi fyrir áður en málið verður afgreitt frá Alþingi hvaða mótvægisaðgerðum ríkisstjórnin muni beita í efnahagsmálum tel ég að sé kannski ekki þægilegt vegna þess að auðvitað fer þetta eftir aðstæðum á þeim tímapunkti þegar framkvæmdir standa sem hæst, á árinu 2005. Þá verður vinnuaflseftirspurn mest og er talið að hún verði um 1,25% af vinnuafli á markaðnum. Ég held að varla sé hægt að ætlast til að þetta liggi allt saman nákvæmlega fyrir nú á vordögum.