Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:21:14 (4736)

2002-02-14 17:21:14# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra kvartar undan því og segir það ekki þægilegt að þurfa að leggja fram þessar mótvægisaðgerðir áður en málið verði afgreitt frá þinginu. Ég vil bara segja, herra forseti, að það er heldur ekki þægilegt fyrir þingmenn að taka ákvörðun í málinu nema þessar mótvægisaðgerðir liggi fyrir. Og hæstv. ráðherra verður bara að skilja að það er grundvallaratriði að ríkisstjórnin geri þinginu grein fyrir því til hvaða mótvægisaðgerða eigi að grípa. Við erum að tala um aðgerðir sem hafa áhrif á verðbólguna þegar á næsta ári. Menn eru að glíma við eitthvert brot úr prósentu til að halda sig innan rauðra strika til að samningum verði ekki sagt upp. En við erum að tala hér um tvö prósentustig sem þetta verkefni getur keyrt verðbólguna upp. Og er það til of mikils mælst, herra forseti, að hæstv. ráðherra a.m.k. segi hér úr þessum ræðustól að hún muni reyna að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin leggi hugmyndir sínar og tillögur fyrir þingið áður en málið verður afgreitt?

Ég bið um það, herra forseti, að hæstv. ráðherra reyni að beita sér í þessu efni. Ég tel þetta grundvallaratriði og ég býst við að ég deili því með ýmsum öðrum þingmönnum, afstaða þeirra gæti byggst á því hvaða tillögur verða lagðar fram að því er þennan þátt varðar. Ég tel mikilvægt fyrir ráðherrann að hafa góðan stuðning hér við þetta mál ef afgreiða á það frá þinginu.

Síðan hélt ég, herra forseti, að ég hefði talað nægilega skýrt þannig að hæstv. ráðherra hefði átt að skilja hvað ég var að fara. Í tvígang hef ég sagt það úr þessum ræðustól --- ég er að spyrja hæstv. ráðherra: Hangir það ekki algjörlega saman að fara í virkjunarframkvæmdirnar og að reisa álverksmiðjuna? Ég spyr með tilliti til þeirra sérkennilegu tímasetninga sem hér eru settar fram. Það verður ekki ráðist í þessa virkjun nema viðunandi samningar náist um þessa álverksmiðju. Er það ekki alveg ljóst, herra forseti? Mér finnst alveg lágmark að hæstv. ráðherra geri þinginu grein fyrir hvað hún hugsar sér í því efni.