Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:03:05 (4756)

2002-02-14 20:03:05# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:03]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir málefnalegu ræðu. Ég held að það fari ekkert á milli mála hvert hugur hans stefnir í þessu máli.

Ég kom aðallega upp vegna orða hans um málflutning Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þ.e. okkar þingmanna hreyfingarinnar. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann muni ekki eftir því að í öllu þessu máli höfum við flutt mál okkar út frá hagrænum sjónarmiðum. Ég vil minna á umræðuna sem átti sér stað varðandi Fljótsdalsvirkjun þar sem þáv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, gaf hv. þm. Ögmundi Jónassyni þinglegt próf í hagfræði. Þá var stór hluti af málflutningi okkar á grunni hagfræðinnar og bollalegginga um þau mál. Við höfum ævinlega flutt okkar mál út frá þeim sjónarhóli einnig. Við höfum fylgt náttúruverndarsjónarmiðum og síðan kynnt tillögur okkar um að fara öðruvísi í þessi mál.

Ég spyr þingmanninn hvort hann muni ekki eftir þessum umræðum og sjái ekki hliðstæðurnar milli umræðnanna í dag og umræðunnar sem átti sér stað þegar tekist var á um Fljótsdalsvirkjun á sínum tíma. Ég tel að málflutningur okkar hafi verið á mjög svipuðum nótum þá.