Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:23:00 (4761)

2002-02-14 20:23:00# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir dró upp mynd af hugsanlegum mannfjölda á Austurlandi ef af þessari fyrirhuguðu verksmiðju yrði, og síðan ef ekki yrði. Er hún þar með að segja að verði ekki af þessari verksmiðju sé stefna stjórnvalda sú að þar fari ekki fram nein önnur aukin atvinnuuppbygging? Er það valkosturinn sem settur er fram, að ekkert gerist, hvorki að þeirra eigin frumkvæði né af hálfu stjórnvalda, ef ekki verður farið í þessa verksmiðju?

Staðreyndin er auk þess sú að ekki hefur verið tekin nein ákvörðun enn þá þó að unnið sé að ákveðinni undirbúningsvinnu miðað við að hún verði. Samt er fjarri því að ákvörðunin hafi verið tekin eins og lýst hefur verið í umræðunni í dag.

Hvaða aðra sýn í byggðamálum hefur hv. þm., ekki aðeins fyrir Austfirðinga heldur alla aðra landsmenn? Er alfarið háð þessari einu verksmiðju að hlutir geti þróast með jákvæðum hætti úti um land?