Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:25:40 (4763)

2002-02-14 20:25:40# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:25]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa vilja og áhuga hv. þm. á að taka á í byggðamálum almennt eins og þingmaðurinn vék að. Hún vék einmitt að sjávarútvegsmálunum og ég skora á hv. þingmenn þar að beita sér innan Sjálfstfl. til að breyta stefnunni í sjávarútvegsmálum þannig að hún verði vinsamleg gagnvart hinum dreifðu byggðum sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi. Stefnan núna er þeim frekar fjandsamleg og sömuleiðis í menntamálum. Ég vil minna hv. þm. á að þar er hægt að taka til hendi en einmitt skólarnir úti um land, fjölbrautaskólar, menntaskólar og starfsmenntaskólar úti um land, eiga erfitt núna. Þeir búa við stöðuga skerðingu á fjárveitingum sem er mjög alvarlegt fyrir dreifbýlið, og ekki síst starfsmenntunina. Og í síðustu aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrir áramótin þótti einmitt sérstök ástæða til að skattleggja nemendur í starfsnámi og verknámi. Ég skora á hv. þm. að beita sér innan síns flokks og taka á málunum á víðtækan hátt því að stefnan í byggðamálum almennt hefur verið á öfugan veg og andstæð byggðum landsins mjög víða. Ég skora því á hv. þm. að einblína ekki á og binda ekki algerlega vonir við álverið sem er ekki einu sinni búið að ákveða að verði, og verður kannski ekki en þá verður annað að koma til. Þar geta stjórnarflokkarnir tekið á og breytt stefnu sinni í þeim grunnatriðum sem snerta byggðir landsins.