Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:46:06 (4767)

2002-02-14 20:46:06# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu haft þá skoðun að illa hafi verið staðið að málum af hálfu stjórnvalda og hæstv. ríkisstjórnar þó að farið hafi verið að lögum. Það var samt ekki aðalatriðið í því sem ég var að segja heldur að byrjað væri á öfugum enda vegna þess að við ættum eftir að klára rammaáætlunina, sjá niðurstöður hennar, fjalla um hana og vinna svo úr henni, hæstv. forseti. Það er það sem ég á við þegar ég tala um skynsamleg vinnubrögð.

Hvað varðar markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er það rétt hjá hæstv. iðnrh. að þau eru ekki síst sett til að upplýsa almenning um ferlið og tryggja lýðræðislega þátttöku í ákvörðunarferlinu. Ein af mögulegum niðurstöðum þess ferlis er að koma í veg fyrir framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og það hef ég leyft mér að kalla að gera að markmiði að koma í veg fyrir náttúruspjöll þó að það sé ekki orðað svo í markmiðssetningu laganna. Og það rifjaðist upp fyrir mér í salnum áðan að ég hefði frekar viljað að það hefði verið sagt berum orðum í markmiðssetningu laganna þegar við settum þau. Það var hins vegar ekki gert og nú súpum við seyðið af því.