Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:49:14 (4782)

2002-02-14 21:49:14# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frv. tekur til þeirra atriða sem hv. þm. Jón Bjarnason gat um. Það er bannað að henda rusli í sjó en menn gera það samt, því miður, og það rekur á fjörurnar. Líkt og þegar unglingar henda rusli um víðan völl eða að það fýkur til hjá fólki, stundum fallast manni svolítið hendur varðandi það. Menn verða bara að taka sig á og þrífa fjörurnar eins og oft hefur verið gert. Átaksverkefni hafa verið sett í gang nokkrum sinnum í samfélaginu, m.a. hefur UMFÍ staðið fyrir slíku. Þar var rusli safnað og menn greindu líka ruslið, hvað það var sem kom í fjörurnar til að geta betur hamið þá sem voru að henda.

Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að það er bannað að henda rusli í sjó. Ef hv. þm. finnur einhverja snjalla leið í frv. til þess að ná einhverjum frekari árangri væri ágætt að það yrði kannski formað betur með einhverjum hætti. En ég tek undir það hjá hv. þm. að þetta er vandamál. Reyndar er það til skammar að sjá sums staðar ruslið í fjörunum (Gripið fram í.) en menn hafa þrifið þetta. Sums staðar skipta félagasamtök svona svæðum á milli sín, eins og Rótary-klúbbar og annað slíkt en það er auðvitað mjög ánægjulegt þegar almenningur tekur sig til og hreinsar strandlengjuna. (JB: En þetta er stærra mál.)