Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 22:00:55 (4787)

2002-02-14 22:00:55# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað mál sem þarf að ræða og fara vandlega í gegnum því að ákveðin vandamál eru á ferðinni í tengslum við það að menn eru ekki sammála um hvernig eigi að skipa þessum málum. Hér er verið að tala um mengun hafsins. Það getur orðið mikil mengun frá eldi fiska sem annars vegar landbrh. er ábyrgur fyrir og hins vegar sjútvrh. En umhvrh. getur í sjálfu sér borið ábyrgð á að fylgja því eftir að það gangi ekki úr böndum, a.m.k. miðað við hvernig til er stofnað með þessari 1. gr. Og þó að einhver sérlög gildi um þessa hluti sem setja starfsemina undir viðkomandi ráðuneyti, sem ég nefndi áðan, tel ég að taka þurfi heildstætt á þessu máli.

Mér finnst ekki við það búandi að hlutverk jafnvel þriggja ráðuneyta skarist í sama firðinum og þess vegna þarf að fara yfir þetta. Ég held að Hafrannsóknastofnun væri hollt að heyra undir annan ráðherra en sjútvrh. Það gæti orðið til þess að sú stofnun yrði sjálfstæðari og gæti gegnt hlutverki sínu með meiri trúverðugleika en hún gerir í dag, og er ég þó ekki að rýra stofnunina með þessum orðum.