Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:02:02 (4789)

2002-02-18 15:02:02# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að við í Samfylkingunni höfum ítrekað beðið um umræðu um málefni Símans, söluna á honum og mál sem henni tengjast. Við höfum að sjálfsögðu óskað eftir því að fá að ræða þetta við hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. hefur nú synjað okkur þessarar umræðu og vísað á hæstv. samgrh. Herra forseti. Þessu getum við ekki unað. Samfylkingin krefst þess að fá að ræða málefni Símans og söluna á Símanum við hæstv. forsrh.

Herra forseti. Einkavæðingarnefnd fer með sölu Símans og einkavæðingarnefnd starfar ekki í umboði hæstv. samgrh. heldur hæstv. forsrh. Þess vegna er það eðlileg krafa að við fáum að ræða málið við hæstv. forsrh.

Það er jafnframt svo, herra forseti, að það hafa komið fram upplýsingar úr ranni einkavæðingarnefndar í þá veru að starfsemi og stjórn Símans sé ekki jafngóð og menn vildu telja. Þaðan hafa komið upplýsingar um að stjórn Símans sé í molum og að sjálfsögðu hljótum við að þurfa að ræða þetta við þann ráðherra sem fer með málefni einkavæðingarnefndar. Það er hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. getur ekki sett hæstv. samgrh. fyrir sig í þessu máli sem skotskífu. Við þurfum að ræða sölu Símans og þar með starfsemi einkavæðingarnefndar. Við þurfum að fá að taka málið upp við hæstv. forsrh. Ég vil lýsa miklum vonbrigðum mínum með að hæstv. forsrh. vilji ekki ræða þetta mál við okkur. Ég lýsi eftir atbeina hæstv. forseta í þessu máli. Það er ljóst að við þurfum að ræða störf einkavæðingarnefndar, herra forseti. Það er ljóst að sú nefnd starfar í umboði forsrh. Þess vegna er það eðlileg og rökrétt krafa af hálfu Samfylkingarinnar að við fáum umræðu við hæstv. forsrh. um þetta mál.