Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:51:24 (4810)

2002-02-18 15:51:24# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að hér gefist ekki mikill tími til að ræða þessi mál, þá held ég að mikilvægt sé að það sé gert. Dregið hefur verið mjög skýrt fram hvaða aðferðafræði er nú beitt á stjórnarheimilinu þegar menn þurfa að skammta sér einhver verðmæti.

Inn í þessa umræðu tengist óhjákvæmilega sú staða að einkavæðingarnefnd hefur með störfum sínum líklega verðfellt fyrirtækið Landssímann svo að um munar þannig að ég held að fráleitt sé að draga þær ályktanir að þær greiðslur sem hér um ræðir séu einhverjar sérstakar bónusgreiðslur, enda held ég að það væri þá a.m.k. dregið frá með einhverjum hætti.

Ég held að nauðsynlegt sé, virðulegi forseti, í þessu samhengi að vekja athygli á 72. gr. hlutafélagalaga, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þeirra ...``

Ég held, virðulegi forseti, að það sé alveg nauðsynlegt að kannað verði til hlítar í þeim samningum sem dregnir voru fram í fjölmiðlum í morgun þar sem fram kom að stjórnarformaður Landssímans hafi gert sérstaka samninga við hæstv. samgrh., hvort það sé svo að þetta tiltekna ákvæði hafi verið brotið eður ei, því það segir sig sjálft þegar stjórnarformanni í fyrirtæki er ætlað það hlutverk að passa upp á hagsmuni fyrirtækisins, að það getur aldrei, virðulegi forseti, verið þannig að tryggt sé að menn passi upp á slíka hagsmuni þegar þeir sitja báðum megin borðsins.