Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:55:45 (4812)

2002-02-18 15:55:45# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Til þess að létta þeim leyndardómi sem a.m.k. snýr að Sjálfstfl. af þessari þrungnu umræðu sem hv. þm. nefnir, þá var það svo að þingflokkurinn taldi að þetta væri dálítið úr sér gengin umræða, þetta væri atvik sem væri þriggja vikna gamalt en við vildum samt, eins og kunnugt er, eiga þessa umræðu, ég og fyrirspyrjandi. Ég held að það hafi verið meginástæðan fyrir því að menn töldu ekki ástæðu til að taka þátt í umræðunni, enda höfðu samfylkingarmenn beðið um alls konar umræður og vildu, eftir því sem ég best veit, fella þessa umræðu niður en það vildi hv. málshefjandi ekki. Þess vegna fór hún fram. Ég fékk þau skilaboð frá formanni Samfylkingarinnar að hann vildi fella þessa umræðu niður eða sameina hana öðrum. (ÖS: Nei, nei.) Nú, ekki svo. Þau skilaboð fékk ég. Ég mun láta sannreyna það.

En það sem vekur hins vegar athygli mína í þessu máli er það að menn hafa ekkert verið að ræða þetta mál sérstaklega heldur farið út um víðan völl og verið að ræða eitthvað annað. Þeim þykir ekki nægjanlegt að ræða þetta mál og auk þess fara þeir langar leiðir til að gera málið tortryggilegt. Það bendir til þess að þeim finnist ekki málið nógu vont. Menn tala jafnan um að þetta séu háar greiðslur, milljónir á milljónir ofan, og menn eru að tala þarna um sex ára vinnuframlag. Ég held að þingmannslaun þyki ekki há en ef allt væri talið væru þau kannski 5--6 millj. á ári, 30 millj. á þessum tíma, og ef síðan sá kostnaður sem lagður er út fyrir þingmenn með sama hætti, skrifstofuhald og allt þess háttar sem hér er borgað fyrir okkur, þá erum við kannski að tala um 60 millj. Auðvitað geta menn lagt fram svona upphæðir og sagt: Hvað er þingmaður að fá 60 millj. á sex árum og kemur engu til leiðar o.s.frv.? Menn geta talað með þessum hætti.

Staðreyndin er sú, og það þýðir ekki að halda öðru fram við fólk aftur og aftur, staðreyndin er sú hvernig sem fólk lætur, að hér hefur enginn keypt sérfræðiþjónustu af sjálfum sér. Mönnum voru skaffaðir vissir tímar, ákveðnir tímar sem sérfræðingar. Yrðu þeir tímar fleiri fengu þeir borgað sem því nam. Þetta vita þingmenn þó að þeir séu með þennan útúrsnúning hér af einhverjum ástæðum.