Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:50:59 (4880)

2002-02-19 13:50:59# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég vil bera af mér sakir eru ummæli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem er jafnframt formaður þingflokks Sjálfstfl. Hún kom í þennan stól og staðhæfði að dag eftir dag kæmi stjórnarandstaðan hingað og legði hæstv. samgrh. í einelti. Þetta er rangt, herra forseti.

Ég vil af tilefni þessara orða rifja upp að ég kom hingað í gær og sagði að það væri ódrengilegt og óheiðarlegt að ætla sér að láta alla sökina á því klúðri sem tengist sölu Landssímans á herðar hæstv. samgrh. og bætti því við að nógu marga krossa hefði hann að bera á sínum öxlum. Ég óskaði þá eftir því fyrir hönd Samfylkingarinnar að við fengjum að ræða þessi mál við þann mann sem ber mesta ábyrgð, þann mann sem hefur vikist undan því að ræða þetta, þ.e. hæstv. forsrh., vegna þess að ég tel að það eigi ekki að leggja hæstv. samgrh. í einelti (Forseti hringir.) út af þessu máli. Orð hv. þm. voru því röng.