Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 15:23:27 (4902)

2002-02-19 15:23:27# 127. lþ. 80.8 fundur 29. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þessar till. til þál. frá þingmönnum Samfylkingarinnar, um siðareglur í stjórnsýslunni annars vegar og siðareglur fyrir alþingismenn hins vegar sem eru á dagskrá þingsins hér í dag, eru auðvitað hluti af miklu stærra dæmi. Við erum að ræða um afmarkaða þætti sem eiga að vera partur af víðtæku neti reglna, samskiptareglna sem eðlilegt væri að fylgja og allir mundu treysta að væri fylgt. Í raun er það undarlegt að hugsa til þess að núna árið 2002 séum við að ræða um þingmannatillögur um slíkt. Það er furðulegt að í raun hafi ekki verið gengið frá þessum málum og þau sett í þannig farveg að allir hefðu á tilfinningunni að hér væri opin stjórnsýsla og hægt væri að treysta umfjöllun um mál einstaklinga, treysta því hvernig þingmenn halda á málum eða standa að því sem þeim er treyst fyrir, að það sé í samræmi við einhverja skrifaða reglu sem fólk geti gengið að fremur en eftir óskrifuðum reglum. Þannig er það ekki.

Eins og fram kom í máli fulltrúa Samfylkingarinnar sem hér hafa talað, Jóhönnu Sigurðardóttur og Bryndísar Hlöðversdóttur, hefur Samfylkingin fjallað mjög ítarlega um lýðræðið. Ég tók eftir því að á síðasta vetri, meðan á fundarherferð stóð sem Samfylkingin stóð fyrir þá í Norræna húsinu, að margir stöldruðu við og sögðu: Já, lýðræðið, þurfum við að ræða það? Það að búa við lýðræði, búa í lýðræðislandi, er gjöf sem allir telja að þeir búi að og allt sé í lagi af því hér sé lýðræðisríki.

Þegar við fórum að ræða þessi mál á mörgum fundum og fengum utanaðakomandi fyrirlesara sem fjölluðu um aðskilin efni, hlustuðum á ræður, fyrirspurnir og svör, var alveg ljóst að ýmislegt var ekki í lagi. Ýmislegt er ekki tryggt með reglum, þaðan af síður lögum. Ég held að öllum sem sátu þessa fundi hafi verið ljóst að það þarf að vera vakandi og það þarf að vernda lýðræðið og standa vörð um réttláta stjórnsýslu.

Á þessum fundum fannst mér sjálfri athyglisverðast að hlusta á umfjöllun um fjölmiðla og lýðræði. Það var afar áhugavert að hlusta á það sem menn höfðu þar fram að færa og þær umræður sem spunnust í kjölfarið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við eigum mikið undir aðhaldi heilbrigðrar umfjöllunar hjá fjölmiðlum. Ekki bara við hér á Alþingi, hún skiptir máli fyrir okkur hér á Alþingi, heldur skiptir aðhald heilbrigðrar umfjöllunar gífurlega miklu máli fyrir stjórnsýsluna alla.

Hér hefur það auðvitað verið nefnt að atburðir að undanförnu setji þessa umræðu í sérstakt samhengi. Ég tek undir það. Það hefur valdið manni hugarangri að fylgjast með einmitt þessari umfjöllun fjölmiðla. Þingmenn hafa hins vegar haldið á lofti umræðunni um að hlutir séu hér ekki í lagi og það að hafa völd þýði ekki að maður megi fara með þau að eigin geðþótta, að um völd og meðferð valds eigi að gilda ákveðnar reglur. Númer eitt, tvö og þrjú er siðferðið varðandi meðferð fjármuna, varðandi meðhöndlun á þeim sem á rétt á þjónustu hins opinbera. Upp úr stendur að hvers konar valdníðsla er í andstöðu við heilbrigðar siðareglur í stjórnsýslunni.

Það er auðvitað eftirtektarvert, sem kemur hér fram, að Ríkisendurskoðun hafi í starfsskýrslu sinni árið 2000 kallað eftir siðareglum. Það styður þetta sem ég er að leggja áherslu á, að við skulum árið 2002 flytja þingmannatillögur um að setja okkur siðareglur. Og það er tvennt í þeirri upptalningu, í greinargerð í 12 liðum, sem ég staldra við. Það er ákvörðunartaka innan stjórnsýslunnar, sem á að vera gagnsæ og opin fyrir gagnrýni, og starfsmannastefna og vinnuumhverfi sem á að stuðla að því að efla siðferðisvitund starfsmanna.

Ég vil rifja upp að fyrir nokkrum árum fór yfirmaður í stjórnsýslu okkar til útlanda og starfaði erlendis á vegum hins opinbera. Þegar hann kom til baka og ætlaði að ganga inn í starfið sitt var búið að afhenda öðrum starfið hans. Þá kom í ljós að hann átti engan rétt. Það voru engar reglur sem vernduðu hann. Hann hafði fengið heimild til að fara úr starfi sínu til starfa erlendis og taldi að hann gæti síðan að því loknu gengið að eigin starfi.

Í kjölfar þessa máls flutti ég tillögu í þinginu um að útbúnar yrðu reglur fyrir starfsmenn í stjórnsýslunni sem færu þessa leið og tækju að sér störf á opinberum vettvangi erlendis. Samkvæmt þeim reglum áttu þeir að vita að hverju þeir gengju þegar þeir færu og þegar þeir kæmu til baka. Auðvitað á ekki að þurfa að flytja slíkar tillögur. Auðvitað á þetta að liggja ljóst fyrir en það er ekki þannig hjá okkur. Eftir því sem ég veit best --- þó að þessi tillaga hafi verið samþykkt hér á Alþingi --- er ekki enn búið að setja slíkar reglur, ekki einu sinni þó að hér hafi verið samþykkt tillaga þar um.

Það er einnig, herra forseti, mjög óþægilegt að lesa þessa setningu núna hér í greinargerðinni, um að opinber starfsmaður ,,gegni starfi sínu eins vel og honum er unnt, noti aðstöðu sína aðeins í þágu almannahagsmuna, misnoti ekki stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings``. Það rifjar upp að óskað var eftir því að ég og fleiri þingmenn kæmu í eftirmiðdagsþátt í haust af því að gerð hafði verið skoðanakönnun meðal almennings í landinu. Ein spurningin í skoðanakönnuninni var: Heldur þú að þingmenn og aðrir sem til þess hafi mögulega tækifæri reyni að skara eld að sinni köku? Allstór hópur svaraði þessu játandi og fannst við blasa að þeir sem hefðu til þess tækifæri reyndu að skara eld að sinni köku.

Opin stjórnsýsla hér, þrátt fyrir að við höfum fengið stjórnsýslulög, er miklu lokaðri, herra forseti, en á hinum Norðurlöndunum. Staða þeirra mála er ólík milli Norðurlandanna. Stjórnsýslan er langopnust í Svíþjóð, þar sem allir hafa fengið aðgang að hér um bil öllu. Ég hef á tilfinningunni að hér sé hins vegar ákveðinn ótti við opna stjórnsýslu.