Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:06:07 (4917)

2002-02-19 17:06:07# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þau meginmarkmið sem fram koma í þáltill. sem hér er til umfjöllunar og borin eru fram af hv. þm. Samfylkingarinnar. Í þessu sambandi vísa ég í málflutning og tillögusmíð Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í húsnæðismálum auk þess sem ég leyfi mér að minna á tillögu sem ég hef sjálfur sett fram um aðkomu lífeyrissjóðanna að húsnæðismálum. Aðkoma lífeyrissjóðanna að húsnæðismálum er reyndar ekki ný af nálinni. Um langan aldur hefur fjármagn lífeyrissjóðanna runnið inn í húsnæðiskerfið í einu eða öðru formi og gerir að sönnu enn. Bæði kaupa lífeyrissjóðirnir húsbréf og veita sjóðfélögum lán sem notuð eru til húsnæðismálanna. Við breyttar aðstæður þurfa þeir hins vegar einnig að íhuga nýjar leiðir að þessu kerfi. Ég held að framtíðin hljóti að bera það í skauti sér að hér rísi fyrirtæki, stofnanir eða sjóðir sem reka leiguhúsnæði líkt og gerist í ýmsum öðrum ríkjum, Hollandi og Þýskalandi, svo að dæmi séu tekin. Fyrir lífeyrissjóðina er þetta að sjálfsögðu álitlegur fjárfestingarkostur. Þetta er traust fjárfesting en samfélagslega uppbyggileg einnig. Þessar hugmyndir reifaði ég í upphafi þessa árs og hæstv. félmrh. sýndi málinu áhuga. Upp voru teknar viðræður sem þyrftu þó að komast lengra á veg en það er mikilvægt að þróa það mál áfram. Innan lífeyrissjóðanna veit ég að áhugi er fyrir því að vinna að framgangi þessa máls.

Það þarf ekki að orðlengja að mikilvægt er að stórátak verði gert í húsnæðismálum. Breytingar voru gerðar á húsnæðislöggjöfinni fyrir fjórum árum. Þar voru tekin skref frá félagslegu húsnæðiskerfi sem hér var byggt upp á síðari hluta 20. aldarinnar með bærilegum árangri og kerfið allt fært í átt að markaði. Þetta er því miður þegar farið að birtast þjóðinni í skelfilegum biðlistum. Í apríl árið 2000 var birt skýrsla á vegum félmrn. þar sem fram kom að 1.250 leiguíbúðir vantaði til að tæma biðlista eftir leiguíbúðum hjá sveitarfélögum og 679 leiguíbúðir vantaði til að tæma biðlista hjá félagasamtökum. Eins og vikið er að í greinargerð með þáltill., þar sem þessar tölur eru reifaðar, má ætla að nálægt 2.000 einstaklingar og fjölskyldur séu á biðlistum eftir leiguíbúðum. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál sem nauðsynlegt er að bregðast við.

Þeir sem þekkja til leigumarkaðar í Reykjavík vita að fyrir 2--3 herbergja íbúð eru einstaklingar og fjölskyldur að greiða á bilinu 70--90 þús. kr. á mánuði. Það er ekki aðeins svo að hér þurfi að gera stórátak í húsnæðismálum varðandi leiguhúsnæði. Það er staðreynd að lágtekjufólk hefur ekki efni á því að kaupa íbúðir miðað við þau markaðskjör sem boðið er upp á. Þess vegna er nauðsynlegt að gera stórátak á þessu sviði varðandi leiguíbúðirnar. En það þarf einnig að efla réttindavernd þeirra sem leigja. Það er gleðilegt að geta sagt frá því að nú er að hefjast samstarf á milli verkalýðssamtakanna ASÍ, BSRB og Öryrkjabandalagsins með aðkomu Reykjavíkurborgar þar sem tekið verður höndum saman með Leigjendasamtökunum um að stórefla starf þeirra. Þetta er nokkuð sem mikilvægt er að styðja vel af hálfu stjórnvalda. Að sjálfsögðu á ríkið að gera þjónustusamning við Leigjendasamtökin til að efla réttindavernd leigjenda.

Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að lýsa eindregnum stuðningi við það meginmarkmið þessarar þáltill. að ráðist verði í stórátak til að fjölga leiguíbúðum á viðráðanlegum kjörum í samráði við sveitarfélög, verkalýðshreyfingu og félagasamtök. Þetta er mjög í anda þeirra hugmynda og tillögusmíða sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur sett fram.