Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:53:31 (4926)

2002-02-19 17:53:31# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átti von á því að hv. þm. Pétur Blöndal kæmi inn á tímavinnukaup sjómanna, hvert það væri. Hann talaði um að þeir hefðu ofurlaun, eins og segir í grg. með frv.:

,,Yfir 98% þeirra sem greiddu til Lífeyrissjóðs sjómanna á árinu 1995 voru karlar. Þannig má segja að sjómannaafslátturinn sé forréttindi karla og vinni gegn launajafnrétti karla og kvenna.``

Herra forseti. Staðreyndin er sú að sjómenn eyða 25% meiri orku en sá sem hefur fast land undir fótum. Starfsævi þeirra er styttri en annarra starfshópa í landinu. Það liggur þegar fyrir.

Vissulega var djúpt og langt kafað með að vitna til svokallaðs sætisgjalds, spítalagjalds o.fl., en það er líka gert hér í grg. Þar er farið allar götur aftur til ársins 1954. Ég hugsa að þeir sjómenn séu fáir starfandi enn, af því að hv. þm. talaði um að hann væri að fjalla um nútímann í þessu sambandi.

Við getum lengi karpað um málið. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess. Ég hef lýst andstöðu minni við það og tel að málið eigi að leysa með öðrum hætti en hér er reynt og lagt er til af hv. þm. Pétri Blöndal.