Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 20:10:07 (4964)

2002-02-19 20:10:07# 127. lþ. 80.18 fundur 202. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (kosningarréttur erlendra ríkisborgara) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[20:10]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni um þetta frv. sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kynnti hér. Ég tel að málið sé í alla staði gott og mjög rökrétt sett fram um hvernig það eigi að byggjast upp varðandi réttindi erlendra manna sem búið hafa hér á landi í þrjú ár. Ég tel að ekki eigi að mismuna þessu fólki varðandi það að hafa áhrif á það sveitarfélag sem það býr í.

Þar af leiðandi er ég algjörlega sammála hv. þm. um efni frv. og mæli eindregið með því að það fái að fara hér í gegn sem allra fyrst og geti orðið að lögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.