Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:29:42 (5062)

2002-02-26 14:29:42# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. viðskrh. og byggðamálaráðherra um það sem stendur í fskj. með þessu frv. og er hluti af því. Þar stendur, með leyfi forseta, á bls. 14:

,,Þá er mikilvægt að kanna möguleika á skattalegum aðgerðum, svo sem að kostnaður við atvinnusókn um lengri veg, t.d. meira en 20 km, verði frádráttarbær frá skatti.``

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvað þetta þýði, hvort um sé að ræða þarna þau sveitarfélög sem eru á svokölluðu byggðakorti ESA, sem hefur verið til umræðu hér í þinginu, þ.e. hvort eingöngu þau sveitarfélög mundu koma til með að geta nýtt sér slíkan afslátt, eða geta það öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins? Ég hef áður spurt hæstv. ráðherra hvernig hún túlki þetta byggðakort gagnvart Suðurnesjum og þetta er liður í því að fá það nákvæmar upplýst.