Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:06:47 (5083)

2002-02-26 15:06:47# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég á sæti í hv. iðnn. og hlýddi með athygli á mál hv. þm. áðan þar sem hann gagnrýndi mjög þá byggðaáætlun sem liggur fyrir en það rifjaðist jafnframt upp fyrir mér að flokkur hv. þm. hefur verið í ríkisstjórn í 13 ár og í forsvari fyrir byggðamálin lengst af þeim tíma, enda talar þingmaðurinn um gömlu góðu byggðaáætlunina svo það virðist sem honum hafi þótt harla gott hér áður.

En það voru aðallega atvinnumálin sem hv. þm. rak hornin í og þar talaði hann um að ríkisvaldið hefði brugðist. Herra forseti. Ég vil endilega fá að vita hvort það er þá núna alveg á síðustu missirum sem ríkisvaldið hefur brugðist. Er þetta eitthvað alveg nýtt? Í hverju hefur það aðallega brugðist? Hvað er það að hans mati sem vantar svo sárlega inn í þessa áætlun til að hún geti orðið jafngóð og hin gamla góða og hvað var svona gott við hana? Hverju skilaði hún? Skilaði hún einhverju sérstaklega góðu fyrir Vestfirði svo dæmi sé tekið?