Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:19:33 (5094)

2002-02-26 15:19:33# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins út af þessu árétta það að auðvitað eru vandamálin, því miður, mjög víða á landsbyggðinni og upptalning mín hérna áðan var ekki tæmandi. Ég vildi að hún hefði verið tæmandi, þá væri vandamálið væntanlega sem því nemur minna.

Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði, við erum að glíma við erfiðar aðstæður í sjávarútveginum. Við stöndum frammi fyrir því að núna höfum við aðeins úr 400 þús. tonnum af bolfiski að moða, bæði til sjófrystingar og landfrystingar, en höfðum 600 þús. fyrir tíu árum eða svo. Auðvitað er þetta gríðarlegt áfall sem hefur mikil áhrif á tekjumyndun í þessari atvinnugrein. Þegar svo bætist við, eins og ég nefndi áðan, að það hefur orðið þróun í átt til aukinnar sjófrystingar og að það hefur orðið gífurleg tæknibylting í þessari atvinnugrein sem hefur gert það að verkum að afköst per manntíma hafa aukist á örfáum árum um helming er augljóst mál að það er mikið tekjufall í þessum byggðum, og ég var að gagnrýna að okkur hefði ekki tekist að bregðast við þessu með eðlilegum hætti.