Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:12:27 (5137)

2002-02-26 17:12:27# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:12]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil frábiðja mér þá framsetningu að vera kallaður tvöfaldur þó að ég hafi aðra pólitíska sýn og aðra skoðun á uppbyggingu á atvinnulífi í þessu landi. Mér finnst hv. þm. Kristján Möller ansi kokhraustur að fara að inna mig í andsvari á tveimur mínútum eftir stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í atvinnumálum. Og kokhraustari er hann vegna þess að hann er að inna Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð eftir svari þegar hann veit fullvel sjálfur að það er ekki eining í hans eigin flokki um þetta mál. Væri ekki heppilegra fyrir þingmanninn að fara inn í þingflokksherbergi síns flokks (Gripið fram í: Nei nei.) og berja saman liði þar heldur en að djöflast á okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði (Gripið fram í.) sem ævinlega höfum gert skýra grein fyrir stefnu okkar í atvinnumálum og að þar væri stóriðjustefnan ekki á blaði? Og það er ekkert nýtt.

Um stóriðju, stóriðjustefnu og uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi þarf ég meira en tveggja mínútna ræðu til að gefa hv. þm. Kristjáni L. Möller svar. (KLM: Örstutt um fjallagrösin?) Menn tala mikið um fjallagrös. Þau eru undirstaða iðnaðar upp á milljarða kr., t.d. í Norður-Skandinavíu, og það er ekki von að það sé vel komið fyrir okkur Íslendingum í uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi ef menn hlæja að möguleikum sem tiltölulega lítil og nett hráefnisauðlind getur gefið okkur. Ég hvet hv. þingmenn til að afla sér gagna. Lyfjaiðnaðurinn á Íslandi er í örri sókn og hann þarf hráefni, þar á meðal fjallagrös ... (Gripið fram í: Hvað með hreindýrin?) og ég veit ekki betur en að Delta í Hafnarfirði hafi skilað hálfum milljarði í hagnað á síðasta ári. Er það ekki fín búbót?