Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:37:51 (5177)

2002-02-26 18:37:51# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Það hefur verið mjög áhugavert að hlusta, sérstaklega á stjórnarþingmenn sem hafa tekist á um einstök atriði, og er alveg greinilegt að ekki er full sátt um þessa þáltill. í stjórnarbúðunum.

Herra forseti. Ég segi fyrir mig og minn þingflokk að við getum sannarlega tekið undir mörg meginsjónarmið í þessari þáltill. og að megintillögurnar sem eru settar fram í fimm liðum eru að mestu leyti eins og þær hafi verið skrifaðar upp úr stefnuyfirlýsingu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, fyrir utan c-liðinn sem við höfum ekki sett á stefnuskrá okkar. Sannarlega getum við tekið undir að stuðla beri að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt sér atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi. Og það vildi ég óska, herra forseti, að ríkisstjórnin færi að þessari tillögu því ,,langstærsta byggðaáætlun allra tíma`` er á skjön við lið e í þessari tillögu.

Hér hefur verið vísað í gömlu byggðaáætlunina sem gekk úr gildi um áramótin. Það eru þó nokkrar áherslubreytingar frá þeirri áætlun til þessarar sem núna er lögð fram. Þá vil ég helst nefna að í gömlu byggðaáætluninni var varðandi nýsköpun í atvinnulífinu lögð áhersla á að þróunarstofurnar yrðu efldar í landshlutunum og þeim gert kleift að efla atvinnu og þá sérstaklega nýsköpun en í þeirri nýju virðist eiga að taka a.m.k. frumkvæði frá þróunarstofunum yfir í nýja stofnun. Í máli hæstv. iðnrh., byggðamálaráðherra, hefur komið fram að einnig standi til að leggja niður eignarhaldsfélögin eða taka út þátttöku ríkisins í fjármögnun eignarhaldsfélaganna. Ég tel þetta vera miður. Ég hefði viljað sjá þá þróun verða hér í landi að við efldum sem mest frumkvæði heimamanna og efldum þróunarstofurnar, atvinnuþróunarfélögin, sem mest og að frumkvæðið kæmi sem mest frá heimamönnum sjálfum.

Í gömlu byggðaáætluninni var einnig ákvæði um að fara mætti í sérstakar aðgerðir til þess að styrkja svæði þar sem sérstakir erfiðleikar kæmu upp. Það er ekki hægt að sjá í þessari nýju áætlun. Í okkar strjálbýla og viðkvæma landi geta alltaf komið upp þær aðstæður að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til þess að vernda byggðina, verjast byggðahruni, og ég held að við verðum alltaf að hafa möguleika til aðgerða inni í myndinni.

Hér er ný hugsun á ferð en það er alveg ljóst að hver sem byggðaáætlunin er og hvernig sem við setjum hana fram eru alltaf hinar almennu stjórnvaldsaðgerðir sem leggja grunninn að byggðaþróuninni og því verður alltaf að samþætta í allri hugsun og allri löggjöf héðan frá Alþingi allt sem snýr að þróun byggðar og hefur áhrif á búsetu. Þeir málaflokkar sem hafa haft hvað mest áhrif á flutning fólks af landsbyggðinni eru einkavæðingarstefnan, sjávarútvegsstefnan og aðgerðaleysið í landbúnaðarmálum. Ég þarf ekki að rekja hvern málaflokk fyrir sig en allir þessir þættir hafa haft áhrif á búsetu í landinu.

Það kemur alls staðar fram í öllum tillögum hér að menntun sé undirstaða uppbyggingar og nýsköpunar um allt land og það er búið að hamra á þessari staðreynd aftur og aftur. Í fjárlögum undanfarinna ára hefur hins vegar, þrátt fyrir að þetta sé ljóst, vantað fjármagn inn í þennan málaflokk og það er ekki bara til grunnskólanna og framhaldsskólanna heldur þarf jafnframt að efla verkmenntaskólana. Að mínu mati munum við standa frammi fyrir verulegum vandamálum á komandi árum vegna þess að okkur kemur til með að vanta fólk sem hefur góða undirstöðu í verknámsfræðum.

Mig langar aðeins, herra forseti, að nefna á þessum stutta tíma umræðuna um byggðakjarnana, það sem dregið hefur verið út úr tillögunni. Þetta er vandmeðfarið en miðað við ástandið eins og það er í dag tel ég að rétt sé að horfa til ákveðinna byggðakjarna. Umræðan smitast e.t.v. af þeirri kynningu sem fyrst fór fram á þessari þáltill. Sú útgáfa gaf a.m.k. hinum dreifðu byggðum ekki mikla von þegar til framtíðar er litið, frekar var dregið úr möguleikum til uppbyggingar eins og á Vestfjörðum. En það verður að tryggja bakland byggðakjarnanna. Og það er alveg ljóst að ef við ætlum í slíkar aðgerðir, að styrkja ákveðna byggðakjarna, þótt ekki sé nema tímabundnar, til þess að reyna að hafa einhver áhrif á það að snúa íbúaþróuninni við, þessari óheillaþróun, verður á sama tíma að tryggja baklandið. Það þýðir ekkert að einblína á byggðakjarna ef þeir verða til þess að soga íbúana úr nærliggjandi byggðasvæðum inn á þessa kjarna. Það þýðir aðeins dreifðari vandamál en við erum með í dag.