Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:46:44 (5178)

2002-02-26 18:46:44# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Á 10. áratug síðustu aldar, eða frá því ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum í landinu, hafa á annan tug þúsunda flutt frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins umfram þá sem flutt hafa í gagnstæða átt. Þetta hefur valdið miklum erfiðleikum í dreifðum byggðum landsins en einnig hér á suðvesturhorninu. Það er mikil blóðtaka fyrir fámenn svæði að missa fólk sem greiðir skatta, rís undir samfélagsþjónustunni og hefur fram að færa vinnandi hendur. Það er líka erfitt fyrir sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu að taka við þessum stríða straumi fólks.

Af þessu hafa menn áhyggjur. Ég held að það eigi við um stjórnmálamenn úr öllum stjórnmálaflokkum. Þess vegna fer hér fram lífleg umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Sú stefna er að mörgu leyti ágæt í orði en menn hafa kvartað yfir því að minna sé um efndir og fleiri en einn fulltrúi stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi hefur sagt að í þessari till. til þál., þessari stefnumótun ríkisstjórnarinnar, sé ekkert naglfast að finna, eins og það var orðað.

Hver eru megináhersluatriði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í byggðamálum?

Í fyrsta lagi teljum við mikilvægt að sjá fyrir öflugri velferðar- og stoðþjónustu. Hún eigi að vera á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á að styrkja fjárhag sveitarfélaganna til að þau rísi undir þeim verkefnum sem þau eiga að rækja.

Í þriðja lagi viljum við sjá atvinnulífinu fyrir góðu aðgengi að fjármagni, fjármagni á góðum, hagstæðum kjörum og hugsanlega einnig nýsköpunarfjármagni, nýsköpunarstyrkjum.

Í fjórða lagi leggjum við áherslu á fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu og sjálfbæra nýtingu auðlinda.

Nú bregður svo við, herra forseti, að einmitt á þau atriði sem ég hef talið hér upp er lögð áhersla í tillögu ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á þessi atriði. Ég ætla að víkja að nokkrum þeirra og benda misræmið sem annars vegar er í orðum og hins vegar í athöfnum ríkisstjórnarinnar.

Það fyrsta sem ég nefndi í stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að styrkja velferðar- og stoðþjónustu í landinu. Þessi stoðþjónusta hefur því miður verið að veikjast. Það kom t.d. fram í umræðu í gær í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að í ársbyrjun 2001 hefði starfsemi á pósthúsum á landsbyggðinni dregist saman og verið um 60% af því sem hún var árið áður, árið 1999. Þetta er dæmi um hvernig dregið er úr stoðþjónustu, mikilvægri stoðþjónustu á landsbyggðinni. Fleiri dæmi mætti nefna.

Annað atriði sem ég nefndi í áherslum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að styrkja sveitarfélögin og fjárhag þeirra. Hvernig skyldi hafa tekist til í þeim efnum? Ef við lítum á heildarskuldir sveitarfélaganna námu þær árið 1992 23 milljörðum kr. Um miðjan áratuginn 1995 voru þær komnar í 38,3 milljarða og árið 2000 í 56,3 milljarða kr. Það kann að vera auðveldara að átta sig á þessum erfiða fjárhag sveitarfélaganna þegar við lítum á hlutfall rekstrar af skatttekjum. Árið 1995 var hlutfall rekstrar af skatttekjum sveitarfélaganna 77,9%. Árið 2000 var hlutfallið komið upp í 83,35. Hvað þýðir þetta? Sífellt minna fjármagn verður eftir hjá sveitarfélögunum til atvinnuuppbyggingar. Þetta er nokkuð sem við teljum mikilvægt að verði snúið við og höfum sett fram tillögur í þá veru.

Ég nefndi mikilvægi þess að tryggja fyrirtækjum á landsbyggðinni aðgengi að fjármagni. Vissulega er einnig talað um þetta í þáltill. ríkisstjórnarinnar. Það er vísað til Byggðastofnunar í því efni, að hún hafi forustu um að auka samvinnu og samstarf opinberra sjóða um að vinna að eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Hvað hefur verið að gerast í þessum efnum? Hér voru til sjóðir, Iðnlánasjóður, Fiskveiðasjóður og fleiri sjóðir til styrkingar atvinnulífinu. Þeir voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem síðan var einkavæddur og gefinn. Byrjað var á að kaupa upp innvolsið í stórverslunum í smásöludreifingu og síðan hvarf hann úr eignarhaldi almennings. Þegar upp var staðið sátu landsmenn eftir með meiri einokun í vörudreifingu en áður hefur þekkst í landinu.

Ég nefni síðan sjálfbæra þróun, sjálfbæra nýtingu auðlinda, eins og segir reyndar í e-lið þáltill. ríkisstjórnarinnar. Þar er talað um að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Þetta er sama ríkisstjórn og er að ráðast í fjárfrekustu framkvæmd í sögu þjóðarinnar, sem gengur þvert á þetta. Þetta er ekki sjálfbær nýting auðlinda. Þar á að skapa lón sem mun fyllast af leðju og drullu og er ekki sjálfbært. Ef menn ætla að halda því fram að þetta sé þróun sem muni stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi er ég hræddur um að menn þurfi að fara að hugsa sinn gang.