Ákvæði laga um skottulækningar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 13:58:42 (5261)

2002-02-27 13:58:42# 127. lþ. 84.2 fundur 397. mál: #A ákvæði laga um skottulækningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram varðandi þessa fyrirspurn og þetta svar sem hér um ræðir að ég er búinn að ganga með svarið tilbúið í nokkurn tíma en einhverra hluta vegna var fyrirspurnin tekin út af dagskrá þegar ég ætlaði að svara henni síðast. Mér er því ekkert að vanbúnaði að svara.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn, annars vegar hvort uppi séu áætlanir um endurskoðun á ákvæðum læknalaga um skottulækningar, hins vegar hvort ég telji koma til greina að endurskoða lagaákvæði með það að markmiði að ýmsar óhefðbundnar lækningaaðferðir gætu hlotið viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum.

Sem kunnugt er eru ákvæði um skottulækningar í 22. og 23. gr. núgildandi læknalaga nr. 53/1988. Áður voru nokkur sambærileg ákvæði í eldri læknalögum. Þó var sú breyting á að samkvæmt fyrri lögum gátu læknar líka stundað skottulækningar en þetta breyttist við gildistöku núverandi laga.

Nokkur umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu um viðurkenningu á ýmsum óhefðbundnum lækningaaðferðum. Má þar nefna nálarstungur, smáskammtalækningar, lið- og beinskekkjulækningar en um leið má geta þess að hnykklækningar eru að hluta viðurkenndar hér á landi og hnykkjar eru ein af viðurkenndum heilbrigðisstéttum.

Mín skoðun er sú að mál af þessum toga þurfi sífellt að vera í endurskoðun og mati. Augljóst er að svipað hefur átt sér stað í nágrannalöndunum og hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld fylgst vel með úttekt nágrannalandanna á þessum aðferðum. Við mat á þessum þáttum tel ég mikilvægt að haft sé í huga og sannarlega metið að þær hafi ekki skaðleg áhrif, ekki sé haldið fram ósönnuðum áhrifum af þessum aðferðum, fólk sé ekki haft að féþúfu í leit sinni að lækningu eða betri líðan og að þeir sem þetta bjóða villi ekki á sér heimildir.

Það hefur verið til umræðu og kom fram þegar ég svaraði fyrirspurn um þetta efni síðast að ég hef haft hug á því að leggja vinnu í að skoða þessi mál og m.a., eins og kom fram, er tillaga til umfjöllunar í heilbr.- og trn. þingsins um það að skipa nefnd til að gera úttekt á stöðu þessara mála, bæði hérlendis og erlendis, og kanna aðra mikilvæga þætti þess frekar. Ég er efnislega sammála því að skipa slíka nefnd og kanna stöðu þessara mála frekar. Ég vil þá meta að lokinni þeirri niðurstöðu hvort tekin verður ákvörðun um endurskoðun á ákvæðum laga um skottulækningar.

Herra forseti. Í ljósi þess sem ég hef sagt vona ég að ég hafi svarað fyrirspurn hv. þm. að einhverju leyti.