Grænmeti og kjöt

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:38:27 (5311)

2002-02-27 15:38:27# 127. lþ. 84.16 fundur 497. mál: #A grænmeti og kjöt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er heillandi verkefni að ræða um matvæli á þessum glæsilega degi. Ég er að koma af miklum blaðamannafundi Flugleiða á Hótel Sögu. Hér á Íslandi eru að hefjast miklir matvæladagar, ,,festival`` eins og gerist í mörgum löndum, sem er nýtt skref af þeirra hálfu til að draga hingað fjölda blaðamanna, stóran hóp meistarakokka úr veröldinni sem líst mjög vel á íslenska hráefnið og lýsa yfir miklum áhuga á að vinna með það. Margir blaðamenn og ferðamenn munu koma til að vera á þessum matvæladögum þannig að það verður hátíð á Íslandi næstu dagana í kringum þessa miklu matvælasýningu.

Það er að sannast að matvælaauðlindirnar á Íslandi eru tvær. Það er ekki bara hafið með sinn góða fisk heldur er landið að gefa af sér gríðarlega góðar afurðir. Íslensk náttúra er hrein og í ofanálag eigum við hér frábæra bændur, góðar afurðastöðvar og ekki síður frábæra kokka og veitingahús og hótel sem leggja rækt við þessa auðlegð íslensku þjóðarinnar. (Gripið fram í: Þú ert þokkalega ánægður ... landbúnaðarins.) Þakka þér fyrir, hv. þm. Landbrh. er þess vegna í góðu skapi og það er tilhlökkun að lifa næstu daga í kringum það að íslenskur landbúnaður og þessar afurðir eru að vekja mikla athygli um víða veröld. Það er nánast bein útsending héðan frá Íslandi til að segja frá grænmetinu, ostunum, kjötinu o.s.frv. (Gripið fram í.) og fiskinum auðvitað líka. Ekki má gleyma honum þegar ég sé hér hæstv. sjútvrh. Hér er hátíð því hafin og stigið eitt skref í íslenskri ferðaþjónustu sem verður skref til framtíðar. Hér verður árlega keppt á þessum grunni í kringum íslensk matvæli og þessa auðlind okkar.

Hv. þm. spyr hvort landbrh. muni beita sér fyrir því að neytendur fái upplýsingar um upprunaland grænmetis í verslunum. Samkvæmt núgildandi reglum um innflutning á grænmeti er ekki krafist vottorða um upprunaland. Við frágang aðflutningsskýrslu þarf hins vegar að geta um upprunaland vörunnar. Því ætti að vera hægur vandi fyrir verslanir að geta um upprunaland við framsetningu vörunnar ef vilji stendur til þess.

Þá hafa íslenskir garðyrkjubændur sjálfir gert átak í því að merkja framleiðslu sína til að aðgreina hana frá innfluttri og um leið til þess að upplýsa neytendur. Ef ég man þetta rétt sér maður þetta fallega íslenska merki með fánalitunum á þessum vörum og greinir að það er íslensk afurð frá íslenskum garðyrkjubændum, og skilur sig frá öðru að því leyti.

Augu neytenda hafa á síðustu árum verið að opnast fyrir nauðsyn þess að vera betur upplýstir um þær vörur sem þeir neyta og er það því umhugsunarefni hvort ekki eigi að skerpa reglur hér á landi um þetta efni. Reglur sem varða spurningu þessa heyra undir þrjú ráðuneyti: fjármála-, umhverfis- og landbúnaðarráðuneyti.

Hvað aðra spurninguna varðar um uppruna kjöts í verslunum og veitingahúsum vil ég segja þetta: Í mars árið 2000 skipaði ég nefnd til að gera tillögur um merkingar búfjár sem tryggðu rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurðar. Nefndin hefur skilað áliti og ég hef verið að vinna með reglugerð í þessu efni sem ekki hefur verið sett enn og reynt að ná um hana samkomulagi. Tekið skal fram að samkvæmt gildandi lögum heyra mál sem varða eldi sláturdýra, slátrun og kjötvinnslu í sláturhúsi svo og kjötvinnslu til útflutnings undir landbrn. en kjötvinnsla og söluverð fyrir innanlandsmarkað eftir að sláturmeðferð lýkur heyrir undir umhvrn. Merkingar innfluttra kjötvara heyra undir umhvrn. og sé ég mér til gleði að hæstv. umhvrh. situr í stól sínum og þekkir þetta mál.