Grænmeti og kjöt

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:49:14 (5316)

2002-02-27 15:49:14# 127. lþ. 84.16 fundur 497. mál: #A grænmeti og kjöt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda og hv. þingmönnum. Það er mjög mikilvægt að neytendur séu ekki blekktir og þeir viti hvaða vöru þeir eru að kaupa. Það er mikið neytendamál að ekki sé falsað með umbúðum og því er auðvitað mjög mikilvægt að fylgja þessu eftir.

Hv. þm. Gísli Einarsson ræddi um ferlið frá haga til maga og upprunamerkingar. Evrópskur landbúnaður er nú mjög að taka sig á vegna mikilla sjúkdóma þannig að þeir eru að fara í miklar upprunamerkingar. Íslenskur landbúnaður er mjög sérstakur og á mikla möguleika í flóru heimsins í matvælum hvort sem það er í Evrópu eða í Ameríku. Við sjáum þrisvar og fjórum sinnum hærra verð á íslenskri kjötvöru, af lambinu og fleiru, í Bandaríkjunum en við höfum hér heima. Við eigum mikla möguleika. En gagnvart neytendum er krafa dagsins frá haga til maga. Íslenskir bændur eiga tækifæri í gegnum þessa sölumeðferð. Þeir geta laðað að sér neytendur, ekki bara hér heima þar sem þeir eiga óskipta aðdáendur sína, heldur geta þeir náð í neytendur sem gera kröfur um að kaupa vörur frá löndum eins og Íslandi, hollar, heilbrigðar og upprunavottaðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að þingheimur allur átti sig á þessum staðreyndum, að menn tali ekki tungum tveim í þessu efni eins og ég hef orðið var við í mörgum þingflokkum heldur leggist á eitt að styðja landbrh. í því að koma ýmsu í kring, einföldum góðum reglum sem skapa öryggi fyrir íslenska neytendur en ekki síður reglum sem gefa íslenskum bændum tækifæri til að selja afurðir sínar á heimsmarkaði á hæsta verði sem gerist í dag.

Ég hvet þingheim til liðsinnis.