Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:21:54 (5333)

2002-02-28 11:21:54# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að heyra svar hæstv. utanrrh. en mér fannst það ekki nógu afgerandi. Þetta er þýðingarmikið mál sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur hér upp. Vissulega væri það sómi fyrir okkur Íslendinga ef Alþingi og stjórnvöld mundu aðhafast í málefnum Palestínu. Við, Norðurlönd og Evrópuþjóðir, höfum öll verið sammála um að ástandið sé óviðunandi fyrir botni Miðjarðarhafs.

Góð orð hafa verið látin falla um að pressa eigi á Bandaríkin. Það hefur vakið vonir að öll þessi lönd, allir utanríkisráðherrar þeirra hafi verið sammála um það. Pressan á Bandaríkin hefur hingað til verið máttlaus. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til að þessar þjóðir beiti sér af hörku við stjórnvöld í Bandaríkjunum og reyni að fá stuðning þeirra við þær tillögur sem fram hafa komið og þær aðgerðir sem stjórnvöld í Evrópu hafa viljað grípa til svo að leysa megi deiluna?

Það vita allir sem vilja vita að Sharon fer sínu fram í trausti þess að Bandaríkin fari ekki gegn honum. Það hefur komið fram og verið vakin athygli á því að Bandaríkin lýsa ekki enn þá stuðningi við tillögurnar. Þau lýsa aðeins yfir að gott sé að þær hafi komið fram en afstaða þeirra er lykill að lausninni.

Herra forseti. Við erum öll sek. Við höfum horft á það í áratugi, án afskipta, að þjóð hefur verið undirokuð. Hún er núna afgirt á 220 víggirtum smásvæðum. Nú virðist hægt og sígandi eiga að tortíma þessari þjóð og það er gesturinn í landinu sem er tortímandinn. Þessu eigum við ekki að una.