Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:20:55 (5353)

2002-02-28 12:20:55# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti mikilvægt að heyra þá yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra að það er enginn vafi á því að erlendir námsmenn muni njóta jafnræðis á við íslenska námsmenn varðandi rannsóknastyrki við íslenska háskóla. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um að það er mikill akkur í því fyrir íslenskt rannsóknalíf og háskólalíf að fá erlenda námsmenn til þess að taka þátt í rannsóknum hér á landi. Hæstv. ráðherra styður fingri sínum á þróun sem er að verða vandamál í íslensku atvinnulífi, þ.e. skorti á hámenntuðum raunvísindamönnum. Við sjáum t.d. að ef svo fer að Íslensk erfðagreining, sem er spútnikfyrirtæki á tveimur sviðum íslensks atvinnulífs, setur hér upp lyfjaframleiðslufyrirtæki á næsta áratug þá kann að skorta 100--150 íslenska eða útlenda rannsóknavísindamenn, þ.e. fyrir þetta fyrirtæki. Það er að koma í ljós að verulegur skortur er á hámenntuðum vísindamönnum sem hafa farið í langt nám. Eitt af því sem við þurfum að skoða til framtíðar er að innan skamms munum við sjá fram á miklu alvarlegri vanda vegna þess að námslánakerfi okkur og styrkjakerfi er slíkt að það kallar ekki á það, eins og í þá daga þegar ég fór til náms og var ákaflega lengi í námi, að menn geri það. Þetta verður vandamál eftir því sem atvinnulífinu fleygir fram og það verður flóknara.

Ég vil svo hvetja hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn til að vinda sér í að kanna möguleikana á því að stokka upp íslenskar rannsóknastofnanir. Skipting þeirra í dag er úrelt og hún þjónar ekki þörfum atvinnulífsins. Hún þjónar ekki heldur þörfum grunnrannsókna. Ég held að hægt væri að spara og fá miklu meira út úr því ef menn færu í að kanna möguleikana á sameiningu og jafnvel taka sum verkefni sem þarna eru og setja þau út á markað.