Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:18:28 (5383)

2002-02-28 15:18:28# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn ágreiningur á milli okkar um þetta þótt við skiptumst hér á andsvörum því við höfum sömu markmið í þessu efni. Ég tel t.d. mjög mikilvægt þegar ég lít á þetta að það umhverfi sem við ætlum að skapa með þessum frv. og þær breytingar sem hafa orðið á háskólastiginu eru ákveðnir grunnþættir sem við höfum unnið að hér heima fyrir og gera bæði vísindasamfélaginu og háskólasamfélaginu betur kleift en áður að taka þátt í þessari samkeppni.

Annar þáttur sem ekki má gleymast er mikilvægi þess að við keppum á alþjóðlegum mörkuðum um styrki eins og í Evrópusambandinu þar sem við fáum mælikvarða á það starf sem við vinnum hér og við komum vel út úr því. Við höfum líka látið framkvæma rannsóknir á gildi grunnrannsókna á Íslandi eins og unnt er að meta þær í alþjóðlegu samhengi og við komum vel út úr því. Við verðum að halda fast í þessar kröfur.

Á sama tíma og við höfum þetta nána samstarf við Evrópuþjóðirnar í rannsókn á menntamálum höfum við einnig verið að styrkja tengsl okkar vestur um haf. Íslensk erfðagreining og fyrirtækin sem byggja á þeirri tækni eru náttúrlega að keppa við öflugustu fyrirtæki í heimi á þessu sviði, sem eru í Bandaríkjunum, og við höfum gert samninga um vísindasamstarf við Bandaríkin. Kanadamenn hafa áhuga á vísindasamstarfi við okkur þannig að við erum einnig að opna ný tengsl í vísindasamvinnu með opinberum samningum, og með því að vekja áhuga á samstarfi erum við að opna þessi tengsl. Ég tel að hvergi sé mikilvægara fyrir okkur Íslendinga --- um það erum við hv. ræðumaður líka sammála --- að standa vel að alþjóðlegu samstarfi en á þessum sviðum. Ef við gerðum það ekki væri hætta á að við drægjumst aftur úr. Við verðum að fá menntað fólk og við verðum líka að gera stofnunum okkar kleift að þróast og starfa í nánu samstarfi við öflugustu alþjóðlegu stofnanir á þessum sviðum.