Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:27:57 (5387)

2002-02-28 15:27:57# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að reyna að snúa út úr orðum hv. þm. að þessu leyti. Ég er honum sammála um þetta.

Herra forseti. Það sem ég vil draga hérna fram er hin gjörólíka afstaða mín andspænis afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um beitingu skattkerfisins til að örva íslenskt atvinnulíf. Ég hef margoft sagt að það sé allt í lagi að beita skattaívilnunum, t.d. til þess að styðja ákveðin fyrirtæki á landsbyggðinni. Ég hef sagt að það eigi að beita sérstökum skattalækkunum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og skammast mín ekkert fyrir það. Hv. þm. fer algjörlega villur vegar ef hann telur að með þessum hætti sé verið að skerða framlag til samneyslunnar. Af hverju fer hann villur vegar? Út af eftirfarandi: Ef við getum með skattaívilnunum fengið fyrirtæki eins og Íslenska erfðagreiningu til að ráða unga vísindamenn til þess að hámennta sig innan vébanda þeirra gagnast það í fyrsta lagi íslenska vísindasamfélaginu, í öðru lagi þeim háskóla sem viðkomandi ungi vísindamaðurinn tengist og í þriðja lagi íslensku samfélagi fyrst og síðast, vegna þess að atgervi viðkomandi Íslendings tapast ekki til útlanda. Hann verður á Íslandi. Hann fullnumar sig hér. Hann verður að hálaunamanni hér og greiðir skatta sína og skyldur til íslenska samfélagsins í staðinn fyrir að greiða það til Bandaríkjanna eða einhverrar annarrar þjóðar. Þegar upp er staðið og við gerum upp þessa reikninga verður lítil en dálagleg summa eftir í vösum íslenskra skattborgara til að standa undir því velferðarsamfélagi sem ég og hv. þm. teljum nauðsynlegt að halda uppi.