Norræna ráðherranefndin 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:50:34 (5394)

2002-02-28 15:50:34# 127. lþ. 85.5 fundur 490. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2001# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka samstarfsráðherra Norðurlandanna, Siv Friðleifsdóttur, fyrir þessa ágætu skýrslu. Ég hugsaði með mér þegar ég fletti henni hversu mikill fróðleikur um fjármögnun verkefna, um verkefni, um gott samstarf Norðurlandanna og þýðingarmikið væri að finna í samantekt af þessu tagi og hvað það væri í raun og veru mikilvægt að skýrsla eins og þessi færi víðar, væri ekki bara dreift hér til þingmanna sem eru fyrir u.þ.b. að drukkna í pappír og fæstir gefa sér tíma til að lesa slíka skýrslu nema þeir sem eru í samstarfinu fyrir og þekkja þar af leiðandi mun betur til þess en aðrir, og svo þeir sem leita til ráðherraskrifstofunnar. Ég ætla að vona að einhverjir fjölmiðlar gefi sér tíma til að glugga í gegnum slíkar skýrslur eins og ræddar eru hér í dag vegna þeirra upplýsinga sem þar er að finna og að umfjöllun um það sem hér er að finna geti vakið áhuga fólks á norrænu samstarfi í ríkari mæli en er.

Það er fyrst og fremst tvennt sem mig langar að koma inn á í stuttri ræðu minni. Annars vegar það sem ráðherrann drap á í inngangi ræðu sinnar sem eru réttindi Norðurlandabúa, verkefni sem sett var af stað af Finnum og þar átti að beina kastljósinu að einstaklingnum sem norrænum borgara og kanna réttarstöðu Norðurlandabúa. Eins og kemur fram í skýrslunni sýndu niðurstöðurnar að mjög margir þættir eru í löggjöf landanna og í framkvæmd löggjafar sem gerir fólksflutninga erfiðari en fólk hefur haldið fyrir fram.

Við höfum alla tíð síðan norræna samastarfið varð virkt hreykt okkur af því að að það að flytja á milli Norðurlandanna væri tilsvarandi því að flytja til annarra bæja í okkar eigin landi, réttindi fylgdu með og réttindin væru jöfn. Þetta væri það sem skildi Norðurlöndin að frá öðrum þjóðum og samskipti okkar innbyrðis markaði öðruvísi samvinnu, nánari, og í henni fælist meiri virðing fyrir einstaklingnum en þekktist annars staðar.

Nú kemur það í ljós þegar við förum að skoða niðurstöður í skýrslunni hverju er ábótavant. Það eru miklar landamærahindranir og sérstaklega kemur það fram varðandi fólk á vinnumarkaði, en það kemur líka fram á öðrum sviðum. Það kemur fram hjá námsmönnum sem búa við öðruvísi búsetu, hafa kannski lent í þriðja landi, og það kemur fram líka hjá ellilífeyrisþegum sem af einhverjum orsökum búa annars staðar en í heimalandinu og búa við allt önnur kjör.

Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á það að um leið og við beinum athygli að vandamálum þá verðum við að skoða stjórnsýsluna og að meðlimir ráðsins eigi möguleika á að fylgja ákvörðunum eftir í þjóðþingunum. Ég hef velt því fyrir mér að hvaða leyti þetta er rétt. Á þessu eru miklar takmarkanir vegna þess að við erum oft að taka ákvarðanir í ráðunum um samvinnu á ákveðnum sviðum og að sameina löggjöf, en í raun og veru höfum við engar forsendur til að vita hver löggjöf hinna landanna er þegar löggjöfin í framhaldi af slíkum samþykktum kemur til okkar lands.

En sífellt fleiri vinna og búa í fleiri en einu landi eða fara til annars lands til að nema eða starfa. Þá koma þessi vandamál upp sem skapa svo mikið ergelsi og fer í taugarnar á fólki. Munur er á skattlagningu, munur er á velferðarkerfinu, sérstaklega hvað varðar ellilífeyri og stefnu í fjölskyldumálum, það er munur á stefnu í menntamálum og kvartað hefur verið yfir símakostnaði og flókinni bankaþjónustu. Sérstaklega vil ég taka fram að Norðurlandaráð tók á þessu með bankaþjónustuna á síðasta fundi sínum núna á útmánuðum og gerði samþykktir ráðherranefndarinnar um að bæta þar úr, hversu gífurlega dýrt það er að flytja fjármuni á milli landa og að það getur kostað 100 danskar kr. að flytja 100 danskar kr. á milli svæða.

Ég gleðst yfir því að ráðherrann lýsir því yfir að í næsta mánuði liggi fyrir tillögur um úrbætur út af því sem kom fram í skýrslunni en ég velti því fyrir mér hvernig það verði hjá okkur að hrinda því í framkvæmd. Þegar Ole Norrback, sem leiddi starfið við réttindi Norðurlandabúa, fylgdi skýrslunni úr hlaði á vettvangi Norðurlandaráðs fyrir skömmu nefndi hann hversu mikilvægt væri að setja tímasetningar um hvenær samþykkt ætti að vera komin til framkvæmda, hann fór ekki nánar inn á hvað framkvæmdin getur í raun og veru verið flókin. Hann taldi að hvert land yrði að kynna ákvarðanir eða skort á framkvæmdum í ráðinu og að sameina yrði eða samtvinna lagaákvæði sem varða frjálsa för fólks og þar sem ólíkar reglur og ólík réttindi væru, í rauninni yrðu þingin að bera saman ný lög með tilliti til laga í öðrum norrænum löndum.

Af því að ég ætla að tala um annað málefni samhliða þessu þá get ég ekki leyft mér að fara mjög djúpt í þetta mál en það er alveg ljóst --- og það benti ég á í umræðu um skýrsluna --- að þarna er ekki bara umræða uppi um að lagfæra eða sameina reglur. Þarna er í raun og veru um að ræða pólitíska stefnumörkun vegna þess að ástæðan fyrir því að ólík staða er hjá ellilífeyrisþegum í löndunum er af því að ólík lög eru hjá okkur, það eru ólík réttindi í okkar landi í fjölskyldumálum miðað við t.d. Danmörku.

Það eru mjög ólíkar reglur um lánasjóð námsmanna í okkar landi og hinna. Eitt af því sem er nefnt er að einstaklingur sem býr í landinu og er í þeirri stöðu að hann eigi í raun og veru að sækja rétt sinn í landinu þar sem hann býr, það eigi að tryggja að hann geti fengið sömu styrki og námsmenn í heimalandi hans, verður mjög flókið af því að við, Íslendingar, búum ekki við sams konar lánamöguleika og styrki og t.d. námsmaður í Danmörku. Þetta vil ég benda á vegna þess að það er þýðingarmikið að taka á þessum málum en það er ekki einfalt vegna þess að við erum að tala um grunnpólitík, við erum að tala um stefnumörkun og viðhorf til velferðarþjóðfélagsins, hvort heldur sem það varðar nám eða starf, félagsleg réttindi, eftirlaun eða annað. Þetta vildi ég sagt hafa um þá skýrslu sem væri í raun og veru ástæða til að taka til umræðu í heild sinni.

Annað sem ég vil víkja að, herra forseti, er Norræni menningarsjóðurinn. Það er vegna þess að þar á ég sæti í stjórn sjóðsins og geri mér mjög vel grein fyrir því hvað þessi sjóður er mikilvægur og hann er mikilvægur fyrir okkur á Íslandi. Hann er mikilvægur fyrir menningarlíf á Íslandi og fjárveitingar sem fara til Íslands hafa skipt mjög miklu máli fyrir þá menningarstarfsemi sem á sér stað hér og á milli Norðurlandanna og fólk sem á möguleika á að fá stuðning úr þeim sjóði.

Í skýrslunni kemur fram að á síðasta ári bárust 826 umsóknir í sjóðinn og af þeim voru 135 óstyrkhæfar en styrkir voru veittir til 247 verkefna, sem þýðir að tæpur þriðjungur af umækjendum fékk styrk. Hins vegar bárust 28 styrkhæfar umsóknir frá Íslandi og styrkveitingarnar voru 14, sem þýðir að helmingur þeirra sem leituðu fengu styrk. Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að það er ekki öllum sem finnst að það eigi að renna jafnmikið eða meira til Íslands en til stóru landanna en það er mikilvægt fyrir okkur að það sjónarmið sé uppi að það beri að styrkja ekki bara Ísland heldur Vestur-Norðurlöndin. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að Ísland og önnur Vestur-Norðurlönd fá góða styrki úr þeim sjóði.

Ég vil líka nefna það, af því að verið er að gera breytingu á samþykktum sjóðsins, að nú er það að gerast að Færeyjar, Grænland og Áland, sem áður hafa sameinast um einn fulltrúa í sjóðnum, fá hvert land um sig fulltrúa inn í sjóðinn með fullum réttindum þannig að þau sjálfstjórnarsvæði eru nú meðlimir í stjórn sjóðsins.

[16:00]

Það er einn galli á Norræna menningarsjóðnum, umsóknir í hann eru mjög flóknar eins og umsóknir í aðra sjóði svo sem eins og hjá Evrópusambandinu. Fólki finnst flókið að fylla þær út, það áttar sig ekki alveg á hvað þarf að vera í umsóknunum og þess vegna hefur verið reynt að fá einhvern í viðkomandi landi til að vera með góðar upplýsingar. Sjóðurinn hefur leitað eftir því að upplýsingaskrifstofan á Akureyri, sem er líka tiltölulega ný starfsemi, taki að sér að veita þeim sem ætla að sækja um í Norræna menningarsjóðinn þessar upplýsingar. Ég tel að þetta geti verið mjög þýðingarmikið fyrir það fólk sem er í menningarstarfi hér og þarf að fá aðstoð. Auðvitað erum við sem erum í stjórn sjóðsins alltaf tilbúin að veita þær upplýsingar og aðstoð sem við getum en þetta er flóknara en svo, fólk þarf aðstoð við umsóknirnar.

Hér er sagt frá tvennu. Annað er sérstök áhersla á norræn sýningarverkefni sem sjóðurinn hefur ákveðið að setja peninga í, að annað hvert ár verði veittur sérstakur styrkur, allt að 3 millj. danskra kr. til yfirgripsmikils verkefnis sem verður þá hin norræna sýning þess árs. Fyrsta verkefnið getum við sagt að sé vestnorrænt verkefni sem unnið er í Færeyjum og heitir ,,Fangst í Vest-Norden``. Stórt framlag var veitt til þessarar sýningar í fyrra og þó að það væri ekki af sömu stærð og vísað er til í þessum texta er litið svo á að þetta sé fyrsta verkefnið. Sú sýning verður farandsýning og kemur til Íslands og Grænlands, hún verður líka sýnd í Skotlandi og hugsanlega á fleiri stöðum. Menn eru síðan að láta sig dreyma um að ferill hennar endi á Íslandsbryggjunni í fyllingu tímans.

Hitt verkefnið er sérstakt átak varðandi norrænt tungumálasamstarf. Þar á líka að veita upphæð 3 millj. danskra kr. til að gera yfirgripsmikla rannsókn. Fyrir 25 árum fór slíkt rannsóknarverkefni fram og var mjög athyglisvert. Nú, 25 árum síðar, á að fara í slíkt verkefni og veita til þess fjármagn og bera saman tungumálaskilning í löndunum. Þetta verkefni mun að sjálfsögðu líka ná hingað til Íslands. Og þá hlýt ég að segja frá því sem við heyrum æ oftar núna á Norðurlandavettvangi, hvað málskilningur á Íslandi hafi breyst gífurlega á einum áratug. Fyrir einum áratug hafi það fólk sem kemur hingað til funda á vettvangi Norðurlandaráðs eiginlega getað snúið sér hvert sem var, hvort heldur var í verslunum, til unglinga eða varðandi leigubíla eða á hótelinu og talað Norðurlandamál, en nú sé alltaf svarað á ensku. Enska er orðin samskiptamálið á Íslandi. Það verður fróðlegt að vita hvað kemur út úr norrænu rannsókninni á málskilningi. Ég hlakka mjög til að sjá það vegna þess að ég vona að staðan sé betri en það sem félagar mínir segja að sé orðin staðreynd hér.

Það síðasta sem ég vil nefna varðandi sjóðinn, herra forseti, er að hann er orðinn sjálfstæður lögaðili og ég vil sérstaklega þakka þeim ráðherrum sem að því máli komu, Siv Friðleifsdóttur sem samstarfsráðherra, og Birni Bjarnasyni sem menntamálaráðherra, fyrir þeirra þátt. Þetta var ekki einfalt mál, það var þýðingarmikið að sjóðurinn hefði ákveðið sjálfræði og það skipti miklu máli í vinnunni sem í hönd fór að þessir tveir ráðherrar brugðust vel við umleitunum okkar, íslensku fulltrúanna í sjóðnum, og við gátum verið stolt af því þegar við mættum á fund í sjóðnum hvernig ráðherrar okkar höfðu tekið fyrstu málaleitan um þetta.

Við höfum nú fullt sjálfræði til að vinna með sjóðinn, m.a. að skoða hvort hægt sé að breyta umsóknartímasetningum. Bara er unnt að sækja um tvisvar á ári og það er mjög vont fyrir Ísland vegna þess að Íslendingar eru svo oft að vinna áætlanir um að gera eitthvað stórt með stuttum fyrirvara og reka sig þá á að næsti fundur verður haldinn kannski eftir að verkefnið kemur til og þá má ekki veita til þess. Fleiri umsóknartímasetningar henta Íslandi því vel og við munum skoða þessi mál og hafa heimildir til að vinna að þeim eins og okkur þykir best.