Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 16:41:03 (5398)

2002-02-28 16:41:03# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[16:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í yfirgripsmiklu erindi formanns Íslandsdeildar hefur verið farið mjög vel yfir þetta mál og eins af hálfu hv. alþingismanns Sigríðar Önnu Þórðardóttur. Ég mun því bara stuttlega greina frá því sem mér var falið. Ég vil þó í uphafi segja að mér hefur fundist mjög fróðlegt að fylgjast með þeim breytingum sem hafa orðið á störfum Norðurlandaráðs. Þegar ég tók þátt í því á árum fyrr þá voru nefndir starfandi sem voru sambærilegar við nefndir ráðherrasamstarfsins og þá nokkuð sambærilegar við þjóðþingin. Síðan var breytingin gerð í þá þrjá stólpa sem Sigríður Anna Þórðardóttir hefur rakið hér og ég get fallist á að kastljósið hafi með því farið á þessa þrískiptingu í starfi Norðurlandaráðs. En ég er afskaplega ánægð með að nú hefur þessu verið breytt til baka í nefndir og forsætisnefnd. Ég var alltaf efins um norðurnefndina og ánægð núna með að búið er að samræma nefndarstarfið í Norðurlandaráði við ráðherrasamstarfið og ég er sannfærð um að það er til góðs.

Formaður Íslandsdeildar bað mig að fara nokkrum orðum um forsætisnefndina. Hún er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem eru kosnir á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Það er ekki langt síðan við Íslendingar vorum með þrjá fulltrúa í forsætisnefndinni og vorum þar með nokkuð vel skipuð, ef hægt er að orða það svo. Nú er fulltrúinn aðeins einn. En þetta breytist auðvitað frá einum tíma til annars. Íslendingar hafa almennt gert sig mikið gildandi í umræðu í norræna samstarfinu og eru, að ég held, mjög virkir í því samstarfi.

Hér voru nefnd sérstaklega tvö stór verkefni á vettvangi forsætisnefndar á síðasta ári. Annað var norræna víddin, sem starfshópur skilaði skýrslu um, og hitt var friðargæslan. Sjálf átti ég sæti í friðargæsluhópnum. En hvað varðar norrænu víddina var lögð mjög mikil áhersla á að --- já, ég vil taka það fram að hún var upphaflega stefna Evrópusambandsins og hún tekur til Eystrasaltslandanna og norðvesturhluta Rússlands og hefur það markmið að styðja lýðræðisþróun, öryggi, stöðugleika og sjálfbæra þróun. Það var Paavo Lipponen, þegar hann var formaður Evrópusambandsins, sem fékk þessa stefnumörkun inn í Evrópusambandið og vildi með því beina sjónum Evrópuríkjanna að Norður-Evrópu og ég held að það hafi verið mjög farsælt að ná þeirri stefnummörkun inn. Hún skiptir máli fyrir samstarfið í Norður-Evrópu og á Norðurlöndunum við vesturhluta Rússlands og við Eystrasaltslöndin. Norðurlönd hafa átt mjög yfirgripsmikið samstarf við Eystrasaltslöndin fyrst og fremst á jafnræðisgrundvelli þar sem þau hafa sitt baltneska ráð og samstarfið er ráðanna í milli.

Með norðlægu víddinni vilja menn ýta undir frelsi, lýðræði, öryggi, stöðugleika og sjálfbæra þróun og helstu svið sem Norðurlandaráð leggur áherslu á innan norðlægu víddarinnar eru t.d. kjarnorkuöryggi, umhverfis- og félagsmál, hagþróun, uppbygging innviða hagkerfis, barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi þvert á landamæri og stuðningur við lýðræðisþróun.

Eins og kom fram hér í ræðum þeirra sem á undan mér hafa talað er nú aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndarinnar. Þannig er að margir óttuðust á sínum tíma að Norðurlandaráð mundi gliðna eða missa kraft við að þrjú af Norðurlöndunum urðu aðilar að Evrópusambandinu. Frekar miklar hrakspár heyrðust um framtíðina á sínum tíma. Niðurstaðan hefur orðið sú að starfið er ekki kraftminna. Það hefur sinn sess. Enginn vafi er á því að það var þýðingarmikil ákvörðun að taka upp umræðuna um öryggis- og utanríkismál og þær umræður marka mjög þing Norðurlandaráðs nú, ekki síst liðið haust miðað við atburði haustsins.

[16:45]

Ég mundi vilja nefna aðeins það samstarf sem ég tók þátt í fyrir hönd Norðurlandaráðs og forsætisnefndar sem var starfshópur um ,,krishantering`` eða friðargæslu. Skýrsla um það var lögð fram á þinginu í haust og féll mjög að umræðum um utanríkis- og öryggismál sem þá fóru fram í kjölfar atburðanna 11. september og þá eftir upphaf hernaðar í Afganistan sem mótaði mjög umræðuna á þinginu. Niðurstaða starfshópsins um friðargæslu var að auka þyrfti norrænt samstarf hvað varðar sameiginleg verkefni, þjálfun og uppbyggingu sérþekkingar á sviði friðargæslu, og því var beint til ríkisstjórna Norðurlanda að kanna möguleika á að koma á samnorrænu hraðliði á sviði borgaralegrar friðargæslu.

Þegar talað er um friðargæsluna á norrænum vettvangi er í raun verið að tala um aðgerðir til að fyrirbyggja átök, áhættustjórnun eða ,,krishantering`` þegar átök eru á einhverju svæði og svo uppbyggingarstarf á eftir. Allt þetta heyrir undir það sem við köllum borgaralega friðargæslu hér.

Norðurlöndin hafa áralanga reynslu af alþjóðasamstarfi og sameiginlegu átaki í friðar- og mannréttindamálefnum. Starfshópurinn fór yfir stefnumörkun og verkefni hjá þeim alþjóðasamtökum og -stofnunum sem Norðurlöndin tengjast og sú vinna studdi þá afstöðu starfshópsins sem Norðurlandaráð gerði að sinni, að Norðurlönd ættu að auka samvinnu á þessu sviði, ekki síst við fyrirbyggjandi aðgerðir. Ef löndin samtvinna bæði mannskap og sérfræðiþátttöku í löndunum verður unnt að auka og efla sameiginlega þátttöku og gera hana breiðari.

Niðurstaða starfshópsins var að leggja fram tillögu um tvær samnorrænar vinnunefndir, önnur skyldi kanna möguleika á að samtvinna þátttöku í því sem kallast friðargæsla eða aðgerðir til að fyrirbyggja átök og hin að kanna forsendur og möguleika á sameiginlegu norrænu hraðliði. Þessar tillögur voru samþykktar á þinginu og það er ánægjulegt frá því að segja að á fundi, sem forsn. hélt með utanríkisráðherrum Norðurlandanna meðan á þinginu stóð, sem sóttur var af Siv Friðleifsdóttur í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar utanrrh., fengu þessar tillögur afar góðar undirtektir og kastljósinu var mjög beint að átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs sem við ræddum reyndar í upphafi fundar í morgun og það kom fram í máli utanrrh. að utanríkisráðherrar Norðurlanda mundu beita sér í samstarfi alls staðar í Evrópu, og Evrópulönd mundu saman þrýsta á Bandaríkin um að taka á með þeim í stefnumörkun varðandi svæði fyrir botni Miðjarðarhafs. Þess vegna er svo mikilvægt, og ástæða til að árétta það enn á ný með tilliti til þess sem þar var rætt, að það er vilji utanríkisráðherra Norðurlandanna og utanríkisráðherranna í Evrópu að fá Bandaríkin með sér í að taka á í málum fyrir botni Miðjarðarhafs til að reyna að stuðla að því að Palestína verði sjálfstætt ríki.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að eftir að hafa unnið að þessum málum fyrir hönd forsn. í Norðurlandaráði og tekið þátt í umræðum um utanríkismál fyrir hönd forsætisnefndar og þeim fundi sem ég hef vísað hér til, þá er ég afskaplega sátt við að þessi mál séu rædd á vettvangi Norðurlandaráðs og að við vinnum saman að þessum þýðingarmikla málaflokki sem aldrei var ræddur og ekki mátti ræða fyrir nokkrum árum vegna eðlis samvinnunnar þá.

Herra forseti. Ég ætla að láta mér nægja að fara þessum orðum um skýrsluna. Henni hafa verið gerð góð skil og við eigum margar skýrslur eftir svo ég lýk máli mínu núna.