Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 16:55:15 (5400)

2002-02-28 16:55:15# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég mun koma hér örstutt inn á starfsemi Norðurlandanefndar sl. ár en í Norðurlandanefnd sátu hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sem hér situr sem forseti þingsins og er formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sú sem hér stendur og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir. Hún var jafnframt annar tveggja varaformanna nefndarinnar á síðasta ári. Nefndin hélt fimm fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópar og formenn nokkrum sinnum.

Málefni Norðurlandanefndar voru --- ég segi voru vegna þess að skipulagið gjörbreyttist alveg um áramótin --- fyrst og fremst norræn samstarfsmálefni, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Norðurlandanefnd gerði vinnuáætlun fyrir starfsárið 2001 og ákvað að sérstaklega yrði unnið að eftirfarandi málefnum: byggðastefnu og fjölmenningu á Norðurlöndum. Þar var unnið afskaplega gott starf sem lofaði góðu og verð ég að segja að þegar ég heyri síðustu fréttir frá Danmörku óttast ég mjög um þann árangur sem hafði náðst í starfsemi Norðurlandanefndar varðandi fjölmenningu á Norðurlöndum. Þar var fjallað um lífskjör og rannsóknir, eins og við höfum verið að gera í allan dag, rannsóknaumhverfið í landinu, vísindarannsóknir og tungumálastefnu á Norðurlöndum. Varðandi byggðastefnu var einkum rætt um landamærahindranir á Norðurlöndum sem hefur komið í ljós að eru meiri en fólk hafði gert sér grein fyrir. Það hefur aukist mjög á síðustu árum, sérstaklega með tilkomu brúarinnar yfir Eyrarsund, að fólk býr í öðru landinu og starfar í hinu. Í ljós hefur komið að þarna er gríðarlegt misræmi í nánast öllum sköpuðum hlutum, meira að segja þar sem menn töldu sig hafa samið um sérstakar norrænar ívilnanir. Þá virðast embættismenn ekki þekkja þá samninga. Þetta hefur m.a. komið fram í símanum ,,Hallo Norden`` sem fólk alls staðar að af Norðurlöndunum hringir í og þar eru því miður ekki fluttar lofgerðarrullur um norrænt samstarf heldur mjög ljótar sögur um hvernig fólki er mismunað milli landa og ég held að það sé alveg einboðið að þarna verði að taka fast í taumana og auka aðgerðir sem gera hreyfanleika milli landanna auðveldari.

Þessi sérstaki vinnuhópur sem fjallaði um kynþáttahatur og útlendinga, andúð og baráttu gegn kynþáttahyggju á Norðurlöndum sem ég gat um áðan hafði skilað alveg sérstaklega góðu starfi sem ég batt miklar vonir við. Nú er ég svolítið uggandi um framhald þess starfs eftir það sem gerst hefur í Danmörku síðan. Tekið var á lífskjörum á Norðurlöndum og margs konar málum sem varða borgararéttindi og jafnrétti. Þar voru t.d. lagðar fram tillögur og samþykktir gegn verslun með konur og börn og aðgerðir gegn nauðungarhjónaböndum og um áætlanir til verndunar vitna í réttarhöldum. Á rannsóknasviðinu var lögð fram tillaga um að gera Norðurlönd að einu rannsóknasvæði.

Um áramótin varð svo þessi gagngera breyting á starfi Norðurlandaráðs og hluti af þeim málum sem enn þá höfðu ekki verið afgreidd voru þá afgreidd til annarra nefnda og sum þeirra til menningar- og menntamálahóps sem ég hef þá ánægju að sitja núna í ásamt hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni sem er varaformaður þeirrar nefndar. Þar verður fjallað um málefni er varða menningu og listir á Norðurlöndum og fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannasamskipti. Maður sér á þessari upptalningu að búið er að afmarka mjög starfsemi nefndarinnar en það var áður galli á starfinu að t.d. Norðurlandanefnd var með of mörg verkefni og of óskyld. Verkefnin voru svo mörg að það var ekki hægt að vinna hvert þeirra um sig nægilega vel.

Mig langar að geta um eitt sem er til umræðu núna í menningar- og menntamálanefnd, var rætt á þessum eina fundi sem er búið að halda í þeirri nefnd, og það er að koma á stofn nýjum verðlaunum á vegum Norðurlandaráðs, kvikmyndaverðlaunum. Þá erum við að tala um verðlaun sem verða veitt fyrir bestu kvikmynd á Norðurlöndum, ekki leikstjórn eða besta leik í aukahlutverki eða eitthvað slíkt heldur bestu kvikmynd á Norðurlöndum. Um þetta fór fram mikil umræða og ef þessi tillaga verður samþykkt mun forsn. í framhaldinu annast úthlutun verðlaunanna.

Ég hef farið í stórum dráttum yfir það sem þessar tvær nefndir hafast að og ætla ekki að lengja umræðuna frekar.