Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:47:49 (5443)

2002-03-04 15:47:49# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er einkennileg árátta hluta þeirra sem störfuðu í auðlindanefndinni að þeir eru eftir á að reyna að túlka textann allt öðruvísi en hægt er að lesa úr honum. Þetta er alveg ótrúlegt og ég man eiginlega bara ekki eftir að þetta hafi áður gerst í nefndarstörfum.

Staðreynd málsins er sú að meiri hluti nefndarinnar lagði tvær leiðir að jöfnu, veiðigjaldsleiðina og það sem kalla má uppboðsleið en reyndar er hún kölluð fyrningarleið. Þrír nefndarmanna greiddu síðan sératkvæði þar sem þeir studdu einungis veiðigjaldsleiðina. Síðan er þráfaldlega verið að reyna að telja manni trú um að meiri hluti hafi verið fyrir uppboðsleiðinni, og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er enn eina ferðina að gera þetta. (Gripið fram í.) Ég held að það hljóti að vera vegna þess að það þjónar hagsmunum þessara hv. þm. einfaldlega betur að tala sig frá sáttinni sem varð í auðlindanefndinni. Ég hef gert athugasemdir við það en hef jafnframt af ákveðnu umburðarlyndi reynt að skilja þá afstöðu vegna þess að stjórnarandstöðunni ber að vera gagnrýnin og henni ber að benda á valkosti. En að reyna að halda þessu fram hér hvað eftir annað fellur ekki einu sinni að því hlutverki stjórnarandstöðunnar að benda á valkosti í mikilvægum málum.