Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:46:35 (5458)

2002-03-04 16:46:35# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðséð að hæstv. sjútvrh. hefur aldeilis verk fyrir höndum eins og hæstv. forsrh. tók til orða, ef hann á að ná samkomulagi um þetta plagg því að hv. þm. er að gera hér grein fyrir verulegum annmörkum á málinu frá sjónarmiði hans séð og verulegum breytingum sem hann óskar eftir, bæði á frv. sjálfu og síðan því að hér komi fram frv. sem margir aðrir hafa kallað eftir líka, um breytingar á stjórnarskránni. Þetta hlýtur þá allt að þurfa að liggja fyrir þegar menn afgreiða það mál sem hér liggur til grundvallar og í umræðunum vonandi í framhaldinu fáum við líka að sjá hvaða glímu hæstv. sjútvrh. þarf að eiga við sína eigin menn, því hæstv. forsrh. tók þannig til orða að ná þyrfti samkomulagi við menn í hans flokki og hafði það meira að segja á undan þegar hann var að ræða um þessi mál. Ég geri því ráð fyrir að honum hafi ratast satt orð á munn þegar hann sagði að hæstv. sjútvrh. ætti verk fyrir höndum við að ná stjórnarliðinu saman um málið, að maður tali nú ekki um stjórnarandstöðuna sem gerir sér tæplega miklar vonir um að mikið verði komið til móts við hana um þetta mál eða umfjöllun um það miðað við forsögu þess eins og hún er komin fram á þennan dag.