Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:06:42 (5521)

2002-03-04 22:06:42# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:06]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakkaði nú ekki áðan hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil gera það hér með. Og það var gott að fá tækifæri til að ræða þetta mál við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson.

Staðreyndin er þessi: Aflaverðmætin eru sennilega yfir ein milljón á hvert einasta mannsbarn í landinu. Þessi aflaverðmæti eru sett í hendur örfárra aðila. Það er eðlilegt samkvæmt þeirri tilvitnun sem ég veit að hv. þm. heyrði ekki --- ég fór með tilvitnun í niðurstöður endurskoðunarnefndar um fiskveiðistjórnina um að greitt væri eðlilegt afgjald. Ég sagði að ef hægt væri að gera út með hagnaði með því að leigja til sín veiðiheimildir á 160 kr. kílóið þá fyndist mér eðlilegt að miða við u.þ.b. fimmtungs hlut af því sem þar um ræðir, að það gæti verið eðlilegt afgjald.

Virðulegur forseti. Ég get sagt það hér að fjöldi manna, öll smábátaútgerðin eins og hún leggur sig ---- þá tala ég um smábáta frá 200 tonnum og niður úr --- mundi bera sig með því að leigja til sín aflaheimildir á því verði sem ég er að tala um, úr því að menn reka sig með hagnaði með því að leigja til sín aflaheimildir á 160 kr. kílóið.