Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:27:16 (5530)

2002-03-04 22:27:16# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alls ekki að halda því fram að ekki verði hægt að selja hann, því það er sannarlega eftirspurn eftir kvóta og auðvitað mundi hann seljast. Ég held því hins vegar fram að þetta sé ekki skynsamleg aðferð við það. Ég tel að tillögur okkar séu einfaldari og þær muni koma á meiri stöðugleika og gera útgerðunum í landinu auðveldara að nálgast veiðiheimildirnar og skipuleggja sína útgerð. Það er það sem mér finnst skipta verulega miklu máli. Ég held líka að eftirmarkaður með veiðiheimildir gæti orðið til þess að mergsjúga útgerðina í landinu meira en yrði með þeim hætti sem við erum að leggja til. Við leggjum til að markaðurinn verði fyrst og fremst þjónusta við útgerðina í landinu sem útgerðin nýtir beint. Það er munur á því eða að búa til eftirmarkað með veiðiheimildir eins og hv. þm. leggur til.