Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:03:42 (5589)

2002-03-05 16:03:42# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það er alltaf hressilegt að fá hv. þm. Einar Odd Kristjánsson í ræðustól. Hann talar a.m.k. frá hjartanu.

En ég verð enn fremur að viðurkenna og kannski endurtaka frá því í gær að ég átti dálítið erfitt með að fá einhvern botn í það sem hann sagði. Það kom þó alveg skýrt fram hjá hv. þm. að hann er andvígur kvótakerfinu --- ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum --- og sérstaklega vegna þess að ekki hefur tekist að byggja upp fiskstofnana. (EOK: Ha?) Þá er hv. þm. ekki síður andvígur stjórnarandstöðunni. Hún fær ekki háa einkunn hjá hv. þm. eða þær hugmyndir sem þaðan koma fram. Hugmyndir sjútvrh. fá falleinkunn, að mati hv. þm. skítfalla þær alveg ef svo má að orði komast, virðulegi forseti.

En svo heldur hv. þm. áfram og lýsir því yfir að ef kvótakerfið verði á einhvern hátt fellt niður eða veiðirétturinn af þeim tekinn sem nú hafa hann hrynji efnahagslífið. Smám saman áttar maður sig því á að maður áttar sig eiginlega ekki á nokkurn hátt á því hvað hv. þm. er að fara. Það má ekki brjóta niður kvótakerfið því að þá hrynur efnahagslífið en hann er andvígur kvótakerfinu, hann er andvígur hugmyndum stjórnarandstöðunnar og enn fremur er hann andvígur hugmyndum hæstv. sjútvrh.

Síðan vísaði hv. þm. í eignarréttarumfjöllun prófessors Sigurðar Líndals, sem ég þekki, þannig að mér sýnist á öllu, virðulegi forseti, að niðurstaða hv. þm. sé sú að setja þetta vandamál í nefnd, að einhver hópur komi að þessu máli í nokkur ár og leiti svara við erfiðum spurningum. Hann talaði sjálfur um að láta erfið verkefni ,,hugann herða`` o.s.frv. Mér sýnist því að hugmynd hv. þm. um þau vandamál sem nú er við að etja sé sú að setja málið í nefnd.