Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:20:16 (5611)

2002-03-05 17:20:16# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hún var mjög athyglisverð sú ríka áhersla sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Steinar Jóhannsson, lagði á það að flokkur hans vildi ekki auðlindagjald eða neitt þvílíkt á sjávarútveginn á sama tíma og flokkur hans stendur fyrir tillögum um að leggja mjög þungar álögur á sjávarútveginn með því að gera aflaheimildir fyrirtækjanna upptækar á svo og svo mörgum árum án endurgjalds. Auðvitað er það alveg augljóst að fiskveiðistjórn af því tagi veldur því að fyrirtæki sem nú hafa byggt sig upp á síðustu árum muni veikjast. Það veldur því líka að verð slíkra fyrirtækja mun lækka og að þessi fyrirtæki muni veikjast með margvíslegum hætti.

Eins og hv. þm. hefur lagt upp mál sitt er líka auðséð og auðheyrt að hann vill draga úr sókninni eins og hún er núna og verður varla skilin öðruvísi en svo að hann hugsi sér að færa veiðiheimildir frá t.d. togurunum. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi hér alveg skýrt fram hjá hv. þm.: Hugsar hann sér það eins og hann sér tillögur sínar að veiðiheimildir verði færðar frá fyrirtækjum við Eyjafjörð og í Fjarðabyggð til annarra staða?