Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:25:06 (5614)

2002-03-05 17:25:06# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú átt orðaskipti við hv. þm. á svipuðum nótum áður. En ég lít ekki þannig á málin að verið sé að tala um að færa frá einum eða neinum. Við höfum mjög góða reynslu af því að stórfyrirtækin eru í prýðilegri samvinnu við þá sem hafa umráðarétt yfir kvóta og ég þarf ekkert að fara út í neina kjördæmayfirferð til þess að lýsa því. Halda menn virkilega að þeir sem standa sig vel í útgerð og eru klárir á því sviði fóti sig ekki í nýju umhverfi? Það er svo augljóst að þeir gera það að sjálfsögðu og finna leiðir til uppbyggingar eftir sem áður. Það á því ekki að þurfa að breyta neinu nema að leiða til þess að það verður fjölbreyttara og betra atvinnulíf út um allt land eins og dæmin sanna.

Hin leiðin er áframhaldandi grisjun eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni eftir lögmálum markaðarins þar sem menn eru settir út á klakann.