Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:28:39 (5616)

2002-03-05 17:28:39# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg makalaust að hlusta á þingmenn stjórnarinnar. Málefnafátæktin er svo mikil að ef Vestfirðingur talar, þá talar hann um einstök fyrirtæki á Vestfjörðum, helst Gunnvöru. Ef þingmaður Norðurl. e. talar, þá er talað út frá Samherja. Ekki af mikilli þekkingu finnst mér eða mikilli virðingu fyrir þeim sem þar stjórna. Halda menn virkilega að stjórnendur þessara fyrirtækja geti ekki unnið eftir nýjum leikreglum? Ég efast ekkert um það. Ég hef tröllatrú á þessum mönnum.

Menn skulu bara átta sig á því að það er alltaf verið að hreyfa eftir lögmálum markaðarins í dag. Það er alveg eins og hv. þm. átti sig ekki á því að yfir nótt er lífsbjörgin tekin frá heilu byggðarlögunum, það er nú bara þannig. Og að stilla svo upp einhverri formúlu um að menn séu með tillögur sem byggja á hugsuninni um atlögu gegn fyrirtækjunum í landinu sem eru í þessari grein, ég frábið mér svona málflutning. Ég hef margfarið í gegnum það í sambandi við okkar tillögur. Af hverju halda menn að tillaga sé um fyrningu á 20 árum? Heldur hv. þm. að það sé ekki vegna þess að okkur er fullljóst hver skuldastaða útvegsins er og ekki er hægt að breyta um kerfi á stuttum tíma? Það er búið að fara ofan í öll þessi mál. Þannig er staðan og við vitum það. En við vitum jafnframt nauðsynina á því að fara aðrar leiðir sem leiða til þess að byggja upp fiskstofnana. Það er meginmálið. Það eru hagsmunir allra, ekki síst þeirra stóru sem eru í greininni núna. Ætli þeim fyndist ekki mikið hagsmunamál að geta hugsað til þess kannski á næstu tíu árum að geta aukið veiðiheimildir um nokkra tugi þús. tonna á ári?