Ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:33:40 (5653)

2002-03-06 13:33:40# 127. lþ. 89.1 fundur 398. mál: #A ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég spyrst fyrir um stuðning við foreldra sem eiga börn á meðferðarstofnunum fjarri heimili, meðferðarstofnunum, sem heyra undir félmrn. en þessir foreldrar bera oft verulegan kostnað af dvölinni, m.a. vegna ferðalaga í sambandi við meðferðina. Allnokkrir foreldrar barna í þessari stöðu hafa leitað til mín og er ljóst að stuðningur við þau er lítill sem enginn og fjárhagslega illa staddir foreldrar hafa lent í fjárhagsvanda og erfiðleikum vegna þessa.

Hæstv. heilbrrh. staðfesti í fyrirspurnatíma á dögunum að ekki ættu þau rétt hjá Tryggingastofnun eins og foreldrar langveikra barna þó svo að vímuefna- og áfengissýki teljist til sjúkdóma. Ég hef undir höndum bréf frá foreldrum drengs sem hefur verið í meðferð á þriðja ár, meðferð sem þau eru mjög þakklát fyrir, enda segir drengurinn sjálfur að án hennar væri hann ekki á meðal vor í dag. Þetta er grafalvarlegt ástand og er foreldrum skylt að taka þátt í meðferðinni, oftast fjarri heimili. Þau þurfa að bera ferðakostnað að fullu sjálf og ferðir allt að einu sinni í mánuði og svo ferðir drengsins heim til að aðlagast heimili sínu um helgar.

Þessir foreldrar sem skrifuðu mér þetta bréf þurftu að fljúga austur á land nokkrum sinnum og síðan að keyra 700 km eftir að barnið var flutt og hafa auk þess allir sumarleyfisdagar þeirra farið í meðferðina. Kostnaðurinn er hundruð þúsunda króna. Ekki eru foreldrarnir að telja þetta eftir sér en finnst á sig hallað í samanburði við aðra foreldra alvarlegra veikra barna sem heyra undir heilbrigðiskerfið og fá greiddan ferðakostnað frá velferðarkerfinu. Efnalitlir foreldrar geta illa eða ekki staðið undir þessu. Foreldrarnir segja í bréfinu, með leyfi forseta:

,,Stuðningur Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndar er ómetanlegur en þó hlýtur að verða að veita meðferðina þannig að foreldrar hafi ráð á að þiggja hana. Ferðakostnaðurinn er allt of mikill fyrir meðallaun þó aðeins sé eitt barn á framfæri, hvað þá ef fleiri börn eru á heimili.``

Það er greinilegt að aðstoð hins opinbera verður að koma til í þessum tilvikum. Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Hvaða rétt eiga foreldrar barna á meðferðarstofnunum til greiðslu ferðakostnaðar vegna dvalar þeirra fjarri heimili og þátttöku þeirra í meðferð barnanna?

2. Eru uppi áform um að auka stuðning við foreldra þessara barna?