Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 16:20:29 (5695)

2002-03-06 16:20:29# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Í niðurlagi greinargerðar með þáltill. þeirri sem hér er til umræðu segir að tilgangur hennar sé að rannsökuð verði öll stjórnsýsla þeirra sem ábyrgð bera á málinu, stjórnenda fyrirtækisins, einkavæðingarnefndar og valdhafa. Flutningsmenn tillögunnar halda því fram að þetta sé eina leiðin til þess að skapa traust á milli Landssímans og þjóðarinnar og forsenda fyrir þeim trúverðugleika sem fyrirtækið þurfi til að rekstur þess geti gengið eðlilega. Á þetta get ég ómögulega fallist heldur virðist mér þvert á móti einsýnt að þessi leið sem lögð er til í tillögunni, að skipa sérstaka pólitíska rannsóknarnefnd, þjóni allra síst þeim tilgangi sem flutningsmenn leggja af stað með. Þessi leið getur aldrei leitt til annars en aukinna pólitískra deilna og ágreinings og er því jafnt í bága við hagsmuni þjóðarinnar og fyrirtækisins. Það hefur ríkt mikil sátt og traust á því eftirlitskerfi stjórnsýslunnar sem komið hefur verið á fót með upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og samkeppnislögum, með embætti umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðun.

Geysimikilvægum þætti fjölmiðla og hins almenna borgara má heldur ekki gleyma sem hluta af því eftirlitskerfi sem við styðjumst við.

Sú umræða sem hér fer fram sýnir einmitt í hnotskurn að það kerfi sem við höfum komið á fót virkar vel. En það má auðvitað sífellt gera betur. Hvað Ríkisendurskoðun varðar sérstaklega er ljóst að mikil og víðtæk sátt ríkir um starfsemi og verk þeirrar stofnunar, eða hefur alla vega gert til þessa. Það er hins vegar óheppilegt að ríkisendurskoðandi, sá aðili sem sinnir jafnframt endurskoðun Landssímans, skuli hafa verið með í ráðum á fyrstu stigum um samkomulag handhafa hlutabréfsins í Landssímanum og stjórnarformannsins. En Ríkisendurskoðun hefur margsannað mikilvægi sitt og varðandi stjórnsýsluendurskoðun á Landssímanum þá er hún eini rétti aðilinn til að annast þá stjórnsýsluendurskoðun.

Umræðu um málefni Landssímans má nálgast út frá tveimur mismunandi forsendum. Það má annars vegar nálgast hana út frá faglegri umræðu um stefnu, starfsemi og stjórnun þessa fyrirtækis. Síðan má nálgast hana út frá pólitískum sjónarmiðum. Umræðan sem átt hefur sér stað upp á síðkastið hefur í miklum mæli byggst á pólitískum forsendum, miklu fremur en faglegum. Slík nálgun veldur því að þetta mikilvæga og dýrmæta fyrirtæki þjóðarinnar hefur orðið fyrir áföllum sem hafa ekki síst komið niður á rekstri þess og starfsemi auk þess að hafa haft áhrif á samskipti fyrirtækisins og þjóðarinnar sem hefur í langan tíma notið góðrar þjónustu fyrirtækisins.

En Landssímamálið er auðvitað ekkert eitt mál, herra forseti, heldur heil saga og röð atburða og atvika sem sum hver tengjast með því einu að sögupersónurnar snerta fyrirtækið á einn eða annan hátt, en á mjög misjafna vegu sem séð verður ef yfir söguna er litið.

Nú er hins vegar svo komið að flest er tortryggt og flestir gerðir tortryggilegir sem koma nærri Landssímanum. En starfsfriður og hagsmunir fyrirtækisins hafa skaðast fyrir þetta.

Framan af snerist Landssímamálið um einkavæðingu ríkisfyrirtækis á samkeppnismarkaði sem hluti stjórnarandstöðunnar hér á þingi fann auðvitað allt til foráttu og grætur vitaskuld þurrum tárum yfir því hvernig fór fyrir söluferlinu. Síðan fór málið að snúast um það hver bæri ábyrgð á því að ekki tókst að selja og þegar frá leið og enginn bauðst til að axla ábyrgð fóru menn að kasta henni á milli sín og alvarlegar ávirðingar hafa gengið á víxl.

Á hinn bóginn, í hugum fólksins í landinu, snýst Landssímamálið fyrst og fremst um seinni kafla sögunnar. Það snýst um ráðningarkjör og starfslokasamning fyrrverandi forstjóra og samkomulagið sem hæstv. samgrh. gerði við stjórnarformann fyrirtækisins. Og það snýst um flutning á trjám og sérstakar símalínur í sumarbústað. Það er augljóst að ýmsar þær fjárhæðir fyrir verk og vinnu sem greiddar hafa verið í tengslum við einkavæðingu Landssímans eru auðvitað ofar skilningi allflestra launamanna.

Herra forseti. Almenningur gerir þá kröfu, að ég tel, að þeir sem hafi brugðist trúnaði, brotið starfsskyldur sínar eða lög axli ábyrgð á því. Hæstv. forsrh. hefur sagt að hann telji það langskynsamlegast miðað við allt það sem á undan er gengið að það komi hrein, ný stjórn að málefnum Símans. Ég ætla í sjálfu sér ekki að deila við hæstv. forsrh. um það mat hans. Málefni undanfarinna vikna og mánaða hafa vissulega orðið til þess að veikja tiltrú almennings m.a. á stjórnvöldum og á Landssímanum. Orð hæstv. forsrh. hef ég skilið svo að hann telji að það að hreinsa út alla stjórn Símans sé helst og best til þess fallið að byggja þá tiltrú upp aftur. Annað þurfi þar ekki að koma til. Hins vegar getur það ekki verið ætlun hans að fella ábyrgðina á því sem heitir í hugum alls almennings Landssímamál á þá fáu menn sem eftir sitja í stjórn fyrirtækisins. Störf þeirrar stjórnar og þeirra sem þar sitja eru auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni en meiri hluti stjórnarinnar hefur ekkert það sér til sakar eða vansa unnið að fá frá hæstv. forsrh. þessa kveðju. Á hinn bóginn hafa margar lykilákvarðanir verið teknar af öðrum og fram hjá þessari stjórn, svo sem samningur hæstv. samgrh. við stjórnarformanninn um greiðslur fyrir ráðgjafarstörf við fyrirtæki hans og fimm ára ráðningarkjör forstjórans fyrrverandi.

Því hefur verið haldið fram, og m.a. í umræðu inni á þingi, að þessar ákvarðanir og ráðstafanir séu ólöglegar. Því hefur líka verið haldið fram að þó að stjórn Landssímans hafi ekkert um þetta fengið að vita þá beri hún samt sem áður samkvæmt hlutafélagalögum alla ábyrgð á þessum ákvörðunum. Það hlýtur að koma nokkuð spánskt fyrir sjónir að stjórninni sé ætlað, ef svo má að orði komast, að bera ábyrgð upp fyrir sig. Hún ber ekki ábyrgð á íhlutun handhafa hlutabréfsins, fulltrúa eina hlutabréfsins til skamms tíma, í þau störf eða viðfangsefni sem í öllum venjulegum hlutafélögum heyra undir verksvið og ábyrgð stjórnar. Staðhæfingar um að slíkar ákvarðanir séu ólöglegar verður líka að skoða í því ljósi að hluthafinn er einn. Ákvæði hlutafélagalaga taka meira og minna mið af því að verja hluthafana innbyrðis og horfa eftir atvikum öðruvísi við í tilvikum eins hluthafa. Þannig er ekki óeðlileg sú túlkun að þeim sem fór með eignaraðild ríkisins hafi verið heimilt að taka ákvarðanir um tiltekin málefni sem samkvæmt lögum og samþykktum félagsins voru ekki undan valdsviði hluthafafundar tekin, enda væri formkröfum fylgt og ákvörðunin sannanleg og skjalfest.

Samkvæmt hlutafélagalögum ber stjórn Landssímans fyrst og fremst ábyrgð gagnvart fyrirtækinu. Hún fer með æðsta vald í málefnum fyrirtækisins á milli hluthafafunda, annast stefnumótun og sér til þess að starfsemi sé í réttu og góðu horfi. Hún hefur eftirlit með fjármunum og bókhaldi félagsins. Hæstv. samgrh. og stjórnarformanni bar vegna eftirlitsskyldu stjórnar með framkvæmdum auðvitað að segja stjórninni frá samkomulaginu sem þeir gerðu með sér um ráðgjafarstörf þess síðarnefnda og í rauninni hefði verið eðlilegast að forstjórinn, sem samkvæmt starfi sínu ber ábyrgð á framkvæmd þessa samnings, hefði kynnt stjórninni efni hans. Með því hefði mátt koma í veg fyrir þann trúnaðarbrest sem varð á milli stjórnarinnar annars vegar og aðila að þessu samkomulagi hins vegar. Á sama hátt ber stjórnarformaður ábyrgð á því að hafa ekki upplýst stjórnina um að honum hafi verið falið af handhafa hlutabréfsins að semja við nýjan forstjóra til fimm ára.

En í umfjöllun um ábyrgð á mismunandi ólíkum málum sem tengjast Landssímanum ber líka að varast að blanda saman störfum og ábyrgð einkavæðingarnefndar og störfum og ábyrgð stjórnar Landssímans. Á höndum stjórnenda fyrirtækisins var að undirbúa það fyrir sölu og það voru fjölmargir starfsmenn sem unnu undir miklu álagi vikum og mánuðum saman að því að ljúka þeim verkþáttum sem undir fyrirtækið sjálft heyrðu svo hægt væri að standa við þau tímamörk sem því voru sett í öllu einkavæðingarferlinu. Ríkisstjórnin, að ráðum einkavæðingarnefndar, tók síðan þá ákvörðun að slá sölunni á frest. Formaður nefndarinnar gaf m.a. upp þá ástæðu fyrir að leggja frestunina til að hann hafði ekki viljað láta sölu Landssímans rekast á við útboð annars fjarskiptafyrirtækis. Hann hlýtur að bera ábyrgð á hagsmunamatinu sem lá til grundvallar þeirri ráðgjöf. Á hinn bóginn mælir öll sanngirni með því að menn hafi það hugfast að margar ástæðurnar fyrir því að einkavæðingaráform Landssímans hafa enn ekki gengið eftir eru án allrar ábyrgðar eða sakar nokkurs þess sem til sögunnar hefur verið nefndur.

Herra forseti. Öll starfsemi og rekstur Landssímans hefur breyst og þróast mikið á liðnum árum og hún mun gera það áfram á næstu missirum og árum. Stjórnendur fyrirtækisins þurfa að vera óháðir pólitískum afskiptum og fá tækifæri til að stjórna fyrirtækinu án þess að standa sífellt í pólitískri orrahríð. Stofnanaímynd fyrirtækisins verður að breytast og dreifðari eignaraðild á Símanum er ein leið til þess að ná þessum markmiðum þannig að fyrirtækið geti betur starfað líkt og gerist með önnur stór og öflug almenningshlutafélög.

Herra forseti. Í stað þess að Alþingi fallist á þessa tillögu um pólitískan rannsóknarrétt á að halda áfram að byggja á því eftirlitskerfi sem hefur verið í mótun á undanförnum árum. Það hefur virkað vel og engin ástæða er til að víkja frá því með því að setja upp pólitíska leiksýningu.