Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:21:29 (5714)

2002-03-07 11:21:29# 127. lþ. 91.4 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson erum sammála um mikilvægi þess að efla, auka og styrkja þá menntun sem Slysavarnaskóli sjómanna veitir eins og allt annað nám sem lýtur að sjávarútveginum og reyndar allri starfsmenntun í landinu eins og hv. þm. kom inn á.

Ég tel því að eitt mikilvægasta málið fyrir íslensk stjórnvöld sé að breyta um stefnu og áherslu í menntamálum, að leggja meira upp úr starfs- og tæknimenntun en nú er gert en að hún sé ekki það fyrsta sem skattlagt er eins og gert var um síðustu áramót þegar aukið fé skyldi sótt handa ríkissjóði. Þá var starfsmenntunin fyrst og fremst skattlögð og nemendur sem voru í starfsnámi, verklegu námi, voru skattlagðir umfram aðra. Sama má segja um Slysavarnaskóla sjómanna og annað sem lýtur að sjómennskunni. Það er afar mikilvægt að þetta nám sé sem best og þróist í takt við tímann hvað varðar tækni og kröfur. Þess vegna ber okkur, íslenska ríkinu, skylda til að byggja þetta nám upp með myndarlegum hætti. Það er sú sýn sem ég kalla eftir varðandi öryggismál og menntun sjómanna. Ég styð frv. sem hér er lagt fram því að það er þó liður í þeim málum. Sú sýn, að það sé samfélagsleg ábyrgð að efla og styrkja menntun sjómanna, mætti koma skarpari fram í þessu frv. sem við fjöllum hér um.