Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 13:34:36 (5736)

2002-03-07 13:34:36# 127. lþ. 91.10 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 903, 576. mál. Um er að ræða frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Frv. þetta er samið af ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara samkvæmt beiðni minni en hún starfar á grundvelli 75. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, heyra að meginstefnu undir fjmrh. Forsrh. tók hins vegar ákvörðun í febr. 2002 um að þetta frv. skyldi flutt af landbrh. en ekki fjmrh. þar sem það varðar breytingar á ákvæðum laga sem hafa að geyma nánar tilgreindar valdheimildir landbrh. til að hafa áhrif á tolla á landbúnaðarvörum. Með frv. þessu er stefnt að því að breyta ákvæði 6. gr. A í tollalögum, nr. 55/1987, á þann veg að landbrh. verði veitt aukið svigrúm við ákvörðun um tollvernd grænmetis sem tilgreint er í viðaukum IVA og B við tollalögin.

Í frv. eru lagðar til breytingar sem byggðar eru á tillögum starfshóps um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta sem skipaður var af landbrh. á fyrri hluta árs 2001, öðru nafni grænmetisnefndar landbrh., sem skilaði lokatillögum til ráðherra í jan. 2002. Þarna komu að aðilar vinnumarkaðarins og Bændasamtökin og síðan menn úr landbrn. og fjmrn.

Í áfangatillögu starfshópsins til landbrh., dags. 30. apríl 2001, var lagt til að tollar á afurðir í 7. kafla tollskrár, sem ekki eru framleiddar hér á landi, yrðu felldir niður við framkvæmd 53. gr. A í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Þau lög hafa að geyma ákvæði fyrir landbrh. til að úthluta tollkvótum á tilteknar vörutegundir sem tilgreindar eru í viðaukum IVA og B í tollalögunum. Með reglugerð nr. 439/2001 kom þessi tillaga til framkvæmda með niðurfellingu á 30% verðtolli sem lagður var á þessar afurðir auk nokkurra magntolla. Lokatillaga starfshópsins gerir ráð fyrir að 30% verðtollur verði við úthlutun á tollkvótum felldur niður af öllum grænmetistegundum 7. kafla tollskrár með setningu nýrrar reglugerðar þess efnis.

Þá er gert ráð fyrir að landbrh. geti áfram við úthlutun á tollkvótum stjórnað álagningu magntolls með setningu reglugerða. Er lagt til að sveigjanleiki í því efni verði aukinn þannig að heimilt verði að skipta verð- og/eða magntolli upp í fleiri gjaldflokka á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt þeim tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IVA og B við tollalög. Núverandi lagarammi er með þeim hætti að verð- og/eða magntollur getur verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en ráðherra er heimilt að hreyfa við tollinum í 25% þrepum, þ.e. unnt er að lækka hann eða hækka þannig að hann nemi 0, 25, 50 eða 75% af þeim verð- og/eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá. Samkvæmt þeirri breytingu sem lögð er til í frv. getur tollurinn verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en heimilt er við úthlutun á tollkvótum að lækka hann eða hækka í minni þrepum en áður þannig að hann nemi 0, 10, 20, 30, 40, 50, 60, 70, 80 eða 90% af verð- og/eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá eftir því hvað hentar hverju sinni.

Verðtollurinn hefur þegar verið felldur niður með setningu reglugerðar sem sett var samkvæmt heimild í lögum nr. 86/2001, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, en þær lagabreytingar voru og gerðar á grundvelli áfangatillögu grænmetisnefndar landbrh. sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Magntollum verði hins vegar beitt þegar framboð af innlendri framleiðslu er nægilegt að magni og gæðum. Með þessu móti er leitast við að tryggja markaðsmöguleika og samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu þegar hún er nægileg að magni og gæðum. Magntollurinn dregur úr áhrifum verðsveiflna á erlendum mörkuðum á verð innan lands og hindrar undirboð. Við álagningu magntolls verða þau sjónarmið höfð að leiðarljósi að magntollurinn myndi ekki umframvernd sem kann að leiða til tímabundinna hækkana á verði innan lands ef ekki er fyrir hendi nægilegt framboð af viðkomandi vöru, eins og getur orðið í byrjun eða lok framleiðslutímabils. Einnig er gert ráð fyrir að fyrir innlendar afurðir til framleiðslu og sölu allt árið verði magntollurinn ákveðinn á þann hátt að hann veiti sanngjarnt verðlagsaðhald og möguleika á samkeppni.

Ef frv. þetta verður að lögum munu áfram gilda sömu lagareglur og áður um þau sjónarmið sem landbrh. skal hafa til hliðsjónar við beitingu ákvæðisins. Við ákvörðun sína verður landbrh. áfram bundinn af 3. málsl. 3. mgr. 6. gr. A þar sem eftirfarandi kemur fram:

,,Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verð- og/eða magntolls skal ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar á innanlandsmarkaði.

Landbúnaðarráðherra skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.``

Þessi sjónarmið voru lögfest í 6. gr. A með lögum nr. 86/2001, um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987.

Þegar framangreindri áfangatillögu grænmetisnefndar landbrh., dags. 30. apríl 2001, var veittur lagagrundvöllur --- en ég hef áður gert grein fyrir því --- skal landbrh. eins og áður segir gæta að framangreindum sjónarmiðum um að tollurinn myndi ekki umframvernd fyrir framleiðendur og stuðli með þeim hætti að tímabundnum hækkunum á verði innan lands ef ekki er nægilegt framboð á viðkomandi vöru.

Í fskj. með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til grg. þeirrar er fylgir frv.

Hæstv. forseti. Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að veita landbrh. aukið svigrúm við ákvörðun um tollvernd grænmetis en ef frv. verður að lögum getur það haft töluverð áhrif á verðmyndun þessarar mikilvægu neysluvöru landsmanna og þar með áhrif á framboð og eftirspurn hennar. Jafnframt verður leitast við að tryggja hagsmuni og samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda. Ég bind vonir við að ef frv. verður að lögum eigi það eftir að skila sér í lækkuðu söluverði grænmetis til neytenda og leiða þannig til aukinnar neyslu landsmanna á þessum hollu fæðutegundum en eins og allir vita er það afar æskileg þróun út frá heilbrigðis- og manneldissjónarmiðum.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. eða eftir atvikum efh.- og viðskn.