Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:27:49 (5811)

2002-03-08 11:27:49# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), JB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Ég held áfram þar sem síðasti ræðumaður lauk máli sínu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er stjórnmálaflokkur sem byggir á hugsjónum jöfnuðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar. Kyndbundið jafnræði, heilbrigt umhverfi og félagslegt réttlæti eru lykilhugtök sem við byggjum stefnu okkar á. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur þá sýn og vill sjá samfélag þar sem gagnkvæm virðing ríkir milli einstaklinga og hver og einn fær sem mestu ráðið um eigið líf. Mannréttindi og grundvallarfrelsi hvers einstaklings á að vera réttur hans frá vöggu til grafar. Breytt efnahagsskipan alþjóðasamfélagsins nægir ein sér ekki til að ná þessu markmiði. Það verður einnig að vinna bug á kúgun og undirokun kvenna í öllum samfélögum. Á því augnabliki sem við fæðumst eða þegar vitað er um kyn okkar ófæddra erum við líffræðilega ákvörðuð sem kvenkyns eða karlkyns. En frá sömu stundu byrjum við að mótast sem félagsverur. Við fáum félagslegt kyn. Við verðum að konum eða körlum.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lítur ekki á það sem vandamál hvað kynin eru ólík, þvert á móti. En það eru hinar neikvæðu afleiðingar þessa mismunar sem við höfnum og berjumst gegn. Ólíkt þarf ekki að vera það sama og ójafnt. Íslenskur réttur hvílir á þeirri reglu að allir skuli jafnir fyrir lögum óháð kynferði og jöfn staða kynjanna hefur verið stjórnarskrárbundin síðan 1995. Auk þess hafa verið í gildi sérstök jafnréttislög frá árinu 1976. Vissulega eru þetta mikilvæg skref. En alvarlegustu skilaboðin eru þau að kynbundin mismunun er raunveruleiki og það hallar á konur og við hér á Alþingi neyðumst til að setja lög um það sem flestum eða öllum okkar finnst sjálfsagt og eðlilegt. Það eru hin alvarlegu skilaboð til okkar í dag.

[11:30]

Ef litið er á kynbundna stöðu einstaklinganna er ljóst að konur eru mun háðari fjölbreyttu og þróuðu velferðarkerfi en karlar. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi er góð félagsleg þjónusta forsenda þess að stúlkur og konur geti sótt menntun, stundað launavinnu og verið efnalega sjálfstæðar. Og hin síðari er að opinbera velferðarkerfið er stærsti vinnuveitandi kvenna. Þar sinna konur miklu af þeirri ósýnilegu vinnu sem þær áður unnu inni á heimilunum í stórfjölskyldusamfélaginu þar sem launagreiðslur skiptu ekki sama máli og nú eða launatekjur deildu fólki ekki í virðingarstiga. Þessi ósýnilega vinna og ábyrgð inni á heimilunum er þó áfram mikilvægur hornsteinn í öllum fjölskyldusamfélögum.

Herra forseti. Skref fyrir skref höfum við unnið áfram sigra en allar aðgerðir stjórnvalda til að rýra hlut og stöðu velferðarkerfisins eru skref aftur á bak. Margt bendir nú til að grundvelli velferðarkerfisins standi ógn af hugmyndum og aðgerðum sem munu auka mun milli ríkra og fátækra í samfélaginu. Háværar kröfur eru uppi um aukna hagræðingu og arðsemi fjármagnsins og einkavæðingu í velferðarþjónustunni. En niðurskurður í velferðarkerfinu hefur óhjákvæmilega áhrif á stöðu kvenna og hann mun leiða til lakari þjónustu og gera konum erfiðara að sameina launavinnu, umönnun barna og annarra fjölskyldumeðlima sem þurfa á umönnun að halda. Einkavæðingu velferðarkerfisins verður að stöðva því hún er ein mesta ógn kvenfrelsis á Íslandi.