Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:36:17 (5813)

2002-03-08 11:36:17# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu. Hún hefur yfirleitt verið jákvæð og uppbyggileg þótt kannski séu undantekningar frá því.

Ég leyfi mér að fullyrða að jafnréttisstarf skilar árangri. Við búum hér á landi við betra lagaumhverfi í jafnréttismálum en aðrar þjóðir, erum í fremstu röð í heiminum að því leyti til. Ég nefni fæðingarorlofslögin. Í þeim er, þegar þau eru komin að fullu til framkvæmda, meiri jafnréttishugsun en í löggjöf annarra þjóða. Þar er jafn réttur karla og kvenna til töku fæðingarorlofs og það hlýtur að verða til þess að launamunur minnki. Reynslan sýnir að feður taka fæðingarorlofið. Það vissum við ekki fyrir víst. Þegar við settum lögin vissum við ekki að yfir 90% karla mundu nota sér þann rétt sem þeir fengu og það er mjög mikilvægt. Engin ástæða er til að gera lítið úr því þó að karlarnir taki ,,mánuðinn sinn`` eins og ég orðaði það í upphafsræðu minni. Atvinnurekandinn veit þegar hann ræður karl að hann getur misst hann í fæðingarorlof ekki síður en konuna.

Við gerum jafnréttisáætlanir, og úr þeim hefur verið gert lítið í umræðunni. Ég er ekki á sama máli. Við erum að skoða hvað hafi gengið fram af þeim verkefnum sem sett voru upp í síðustu jafnréttisáætlun og þau hafa gengið býsna vel fram.

Félmrn. fékk það hlutverk að framkvæma 21 verkefni og við erum vel á vegi með að leysa þau af hendi. Ég nefni sérstaklega tvö eða þrjú af þeim sem við höfum verið að sýsla með. Við höfum sett upp þriggja ára tilraunaverkefni um jafnréttisráðgjafa á Norðurlandi vestra og því var ýtt úr vör af hálfu ráðuneytisins 1998. Meginverkefni ráðgjafans var að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu og jafnréttisráðgjafinn hefur unnið feiknarlega gott starf. Nú erum við að færa þetta starf út um landsbyggðina í samstarfi við Byggðastofnun, og jafnréttisráðgjafar koma í öll kjördæmi.

Við höfum látið vinna verkefni um kynhlutlaust starfsmat. Það var unnið undir forustu hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur. Búið var til módel til að gera kynhlutlaust starfsmat, og það er fyrir hendi. Verkalýðshreyfingin hefur unnið gott starf að jöfnun launa og ég nefni sérstaklega Verslunarmannafélag Reykjavíkur sem hefur verið afar vakandi yfir þessu verkefni.

Ég hef áhyggjur af sveitarstjórnarkosningunum vegna þess að mér sýnist sem það verði örðugt að fá konur til að taka sæti í sveitarstjórnum. Mér sýnist það á þeim listum sem eru að myndast.

Það dregur sem sagt saman með kynjunum. Menntun kvenna er að verða meiri en karla. Starfsval þeirra er reyndar þáttur í þessu. En launamisréttið er ekki eingöngu körlum að kenna. Konur verðleggja vinnu sína ekki með sama hætti og karlar og gildismat þeirra er að einhverju leyti annað en karla.