Einkahlutafélög

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 14:09:43 (5845)

2002-03-08 14:09:43# 127. lþ. 93.11 fundur 546. mál: #A einkahlutafélög# (hlutafé í erlendum gjaldmiðli) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta tengist frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Það frumvarp var samið í viðskiptaráðuneytinu í kjölfar þess að ábendingar bárust úr atvinnulífinu um að æskilegt væri að unnt yrði að skrá hlutafé í íslenskum hlutafélögum og einkahlutafélögum í erlendum gjaldmiðli. Nánari athugasemdir um bakgrunn málsins er að finna í því frumvarpi og í framsöguræðu minni með hlutafélagafrumvarpinu. Benda má á að í fjármálaráðuneytinu hefur verið unnið að því að fá breytt löggjöf þannig að færa megi bókhald og semja ársreikninga félaga í erlendum gjaldmiðli og liggur frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.

Gert ráð fyrir strangari reglum um einkahlutafélög en þau hlutafélög, sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, til að geta ákveðið hlutafé í erlendum gjaldmiðli. Einkahlutafélögin, sem voru um 15.000 í árslok 2001, þurfa með öðrum orðum að hafa fengið heimild ársreikningaskrár sem vistuð er hjá ríkisskattstjóra til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum og fullnægja ýmsum skilyrðum í því sambandi.

Meðal skilyrða sem nægja er að félög séu með meginstarfsemi sína erlendis eða hafi meginstarfsemi sína hér á landi, en séu með verulegan hluta viðskipta í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Öll hlutafélög og öll einkahlutafélög þurfa að halda nýja gjaldmiðlinum óbreyttum í a.m.k. fimm ár nema ráðherra veiti undanþágu frá þeim tímamörkum. Þar eð heimild ársreikningaskrár er grundvallarskilyrði fyrir erlendum gjaldmiðli í einkahlutafélögum fela ákvæði frumvarpsins í sér að íslensk einkahlutafélög þurfa að byrja með hlutafé í íslenskum krónum.

Auk íslensku krónunnar má samkvæmt frumvarpinu ákveða hlutafé í átta erlendum gjaldmiðlum, þ.e. evru, bresku pundi, dönskum, norskum og sænskum krónum, bandaríkjadal, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Kveðið er á um að í ákvörðun hluthafafundar skuli greina frá nafnvirði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli og jafnframt er kveðið á um umreikning milli gjaldmiðla.

Gert er ráð fyrir að ráðherra geti sett reglur um að miða megi við aðra gjaldmiðla, svo og kveðið nánar á um skilyrði fyrir því að hlutafé sé ákveðið í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni og hvenær sú breyting megi fara fram. Þá er kveðið á um refsingu við broti á reglum. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júní 2002.

Breytingar þessar á löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög, eru taldar geta aukið samkeppnishæfni íslenskra félaga gagnvart fyrirtækjum í evrulöndunum og öðrum ESB-löndum en búast má við að í þeim ESB-löndum, sem eru utan evrusvæðisins, verði unnt að færa bókhald og semja ársreikninga í evrum og jafnframt tilgreina hlutafé í þeirri mynt. Nánari grein er gerð fyrir kostum þess að geta skráð hlutaféð í erlendri mynt í athugasemdum með frv.

Félögin yrðu ekki skylduð til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli eða hafa hlutafé í erlendum gjaldmiðli heldur er um val þeirra að ræða. Það er því ekki verið að leggja sérstakar byrðar á þau með löggjöf.

Ekki er talið að frv. muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að að lokinni umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.