Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 16:23:43 (5865)

2002-03-08 16:23:43# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra á erfitt með að koma með málefnaleg andsvör. Það er svo sem eðlilegt. Ég hefði þó mjög gaman af því að heyra hæstv. samgrh. nú í dag segja að eðlilegt sé að hæstv. iðnrh. fari með hlutabréfið í Rarik, þegar verið er að knýja hann til þess að afhenda fjmrh. það hlutabréf.

Ég óska þess ekkert að þetta hlutabréf verði gefið út. Ég óska þess helst að þetta verði alls ekki einkavætt eins og Framsókn er að leggja hér til, svo sannarlega.

Engu að síður er fróðlegt að vita hvað fer fram á þeim bæ sem heitir ríkisstjórnarheimilið.

Herra forseti. Ekki neitt hefur komið fram hér, og ég innti hæstv. ráðherra eftir því, sem hæstv. ráðherra hefur fundið að stjórn núverandi kerfis. En við þekkjum reynsluna af hlutafélagavæðingu Símans og við þekkjum líka hlutafélagavæðingu á Póstinum. Hún hefur leitt til skertrar þjónustu víða um land. Pósturinn er að lækka þjónustustigið og loka pósthúsum, færa þau að hluta til inn í einhverja aðra starfsemi, en að meginhluta er verið að lækka þjónustustigið á mörgum sviðum hjá Póstinum eftir að hann var hlutafélagavæddur.

Rarik er núna beint á vegum ríkisins og ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þar sé svo mikið að að nauðsynlegt sé að láta Rarik feta í fótspor Landssímans. (LB: Er nokkuð búið að skoða fyrirtækið?) Ætli nokkuð sé búið að skoða fyrirtækið? Þetta fyrirtæki lýtur eðlilegri stjórnsýslulegri endurskoðun og er algjörlega á vegum ríkisins og þarf enga rannsóknarblaðamennsku til þess að kafa ofan í það. Það er kannski vilji hæstv. ríkisstjórnar að láta Rarik fylgja í kjölfar Landssímans. Þá vegferð harma ég.