Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:10:57 (6121)

2002-03-13 14:10:57# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ástæða er til að ræða þessi mál. Menn sáu nefnilega á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni mjög mörg tækifæri í atvinnu- og byggðamálum í kjölfar orða stjórnmálamanna. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sagði m.a. á Alþingi 23. febrúar 2000 um flutning tiltekinna verkefna til Ólafsfjarðar:

,,Ég tel að þessi vinna sem einkum hinir fjórir ráðuneytisstjórar hafa komið að sé í góðum farvegi. Þó að ég vilji ekki tímasetja á þessu augnabliki nákvæmlega hvenær starfsemin geti hafist, þá er vinnan komin vel af stað og ákvörðun af því tagi hefur því verið tekin.``

Mér finnst að þessi orð segi meira en margt annað um hvernig staðan er. Sagt var að þessir hlutir væru að gerast. En það hefur ekkert gerst.