Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:54:01 (6146)

2002-03-13 14:54:01# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Forsrn. fól iðnrh. með bréfi, dags. 16. febr. 2000, framkvæmd þál. þeirrar sem hér var nefnd. Iðn.- og viðskrh. skipaði nefnd til að vinna að þessari úttekt og áttu sæti í henni Helgi Bjarnason úr iðn.- og viðskrn., formaður, Jakob Ólafsson tilnefndur af Orkubúi Vestfjarða og Pétur E. Þórðarson tilnefndur af Rafmagnsveitum ríkisins.

Í upphafi aflaði nefndin sér nauðsynlegra gagna um stöðu þrífösunar hjá rafveitum landsins. Þar kom í ljós að hjá rafveitum í þéttbýli eiga nánast allir aðgengi að þrífösun enda eru stofnlínur rafveitnanna yfirleitt þriggja fasa. Þá eru dreifikerfi í þéttbýli öll þriggja fasa að undanskildum hluta heimtauga.

Nefndin kannaði einnig í framhaldinu sérstaklega hvernig aðgengi raforkunotenda að þriggja fasa rafmagni í dag í dreifbýli landsins er háttað og lagði mat á umfang þess að raforkukerfi landsins verði þannig úr garði gert að öllum sé tryggt aðgengi að þriggja fasa rafmagni.

Þá hefur nefndin reynt að meta hver þörf notenda sé fyrir þriggja fasa rafmagn þar sem það er ekki þegar fyrir hendi. Nefndin fékk til fundar við sig fulltrúa Bændasamtakanna og orkuspárnefndar til að vinna að því hvernig rétt væri að meta þörf einstakra búgreina og svæða fyrir þrífösun. Í framhaldi af því ákvað nefndin að leita eftir umsögnum og ábendingum frá sveitarfélögum um þörfina í hverju þeirra. Bárust umsagnir frá flestum sveitarstjórnum og hefur nefndin stuðst við þær við að greina þörf fyrir þrífösun og hvar hún er brýnust.

Fram að síðustu áramótum hafa verið að berast ábendingar sveitarstjórna um æskilega forgangsröðun á þrífösun í viðkomandi sveitarfélagi. Nefndin telur að þær upplýsingar sem nú eru komnar fram gefi raunhæfa mynd af þörf þrífösunar í sveitum landsins.

Nefndin hefur á síðustu vikum unnið að greinargerð um niðurstöður sínar sem gefin verður út á næstu dögum. Meginniðurstöðu nefndarinnar má telja vera eftirfarandi:

1. Einfasa aðveitu- og dreifilínur Rariks og Orkubús Vestfjarða eru í dag um 5.000 km að lengd og þriggja fasa línukerfi er um 2.800 km. Talið er að samtals nemi kostnaður við að breyta núverandi einfasakerfi að fullu yfir í þriggja fasa kerfi um 9.600 millj. kr.

2. Heildarkostnaður við allar nauðsynlegar aðgerðir sem leiðir af forgangsröðun samkvæmt óskum sveitarstjórna er áætlað að nemi samtals um 1.940 millj. kr. Ef haft er í huga að þrífösun alls landsins muni kosta um 9.600 millj. kr. eins og fram kom er þessi sértilgreindi kostnaður um 20% af þeirri upphæð. Því er ljóst að unnt er að forgangsraða nauðsynlegustu aðgerðum miðað við þarfir notenda.

3. Ef litið er á flokkun aðgerða eftir forgangsröðun sveitarstjórna kemur í ljós að afar brýnar aðgerðir nema aðeins 12--13% þessa kostnaðar eða 230--250 millj. kr.

4. Brýnir forgangsflokkar í röðum sveitarstjórna munu krefjast 1.200--1.300 millj. kr. fjárfestingar alls eða um 13% heildarkostnaðar við þrífösun landsins. Lausleg forgangsröðun framkvæmda samkvæmt óskum sveitarstjórna leiðir í ljós að heildarfjárþörf við þrífösun umfram þessa upphæð skilar nánast engum auknum ávinningi fyrir notendur miðað við óskir þeirra.

Í tillögum nefndarinnar er lagt til að Rarik verði falið að vinna sérstaka áætlun um endurbyggingu dreifikerfisins fyrir þrífösun miðað við ofangreindar niðurstöður könnunar nefndarinnar á þörf þrífösunar á landsbyggðinni.

5. Vanda þeirra notenda er hafa mikla þörf fyrir þriggja fasa rafmagn en búa utan þriggja fasa svæða má leysa tímabundið með öðrum og hagkvæmari aðgerðum, með uppsetningu á tíðnibreytum eða svokölluðum rafhrútum en slíkur búnaður breytir einfasa rafmagni í þriggja fasa.

Svar við spurningu 2 er eftirfarandi: Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki skrá um það hvaða notendur hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni eftir sýslum landsins enda er ekki fullljóst á hvern hátt það skuli skilgreint. Hjá Rafmagnsveitunum er þó talið að þeir notendur sem tengjast spennistöðvum í þriggja fasa kerfi háspennulína eða -strengja hafi aðgang að þriggja fasa rafmagni. Þessar spennistöðvar eru nú um 1.250 og hefur þeim fjölgað um 204 á síðustu þremur árum eða frá nóvember 1998. Þessum stöðvum tengjast um 400 notendur en reynslan sýnir að aðeins um helmingur þeirra hefur talið sér hag í því að taka þriggja fasa rafmagn.